Leiðinlegt vetrarveður á leiðinni

Vindaspá klukkan 16 á morgun, þriðjudag. Fjólublái liturinn táknar vindhraða …
Vindaspá klukkan 16 á morgun, þriðjudag. Fjólublái liturinn táknar vindhraða á bilinu 16-24 m/s. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Lægðin sem olli hríðarveðri á landinu í gær ætlar enn og aftur að leika landsmenn grátt á morgun og það strax snemma í fyrramálið. Búast má við leiðinlegu vetrarveðri; hvassviðri eða stormi með snjókomu, fyrst á Vestfjörðum en svo víðar. Því eru líkur á að færð spillist þar sem veðrið verður hvað verst. 

„Þessi lægð sem fór yfir landið í gær fer aftur yfir okkur í dag og kemur svo aftur á morgun. Hún ætlar að vera þrálát,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. „Á morgun verður leiðinlegt vetrarveður norðan- og vestanlands og víða blint. Þá verður lægðin búin að ná sér í aðeins meiri styrk þannig að við erum að búast við hvassviðri og stormi á Norður- og Vesturlandi með snjókomu.“

Veðurvefur mbl.is

Hún segir allar líkur á því að veðrið nái um tíma inn á höfuðborgarsvæðið. Líklega verður veðrið hvað verst þar síðdegis, mögulega milli klukkan 14 og 16. „Það gæti skollið á með hvassri norðvestanátt og ofankomu. En þetta ætti ekki að standa lengi yfir.“

Á Suður- og Austurlandi verði að mestu þurrt. Veðrið mun svo ganga niður er líður á morgundaginn, fyrst vestan til á landinu.

Úrkomuspá klukkan 15 á morgun, þriðjudag.
Úrkomuspá klukkan 15 á morgun, þriðjudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Næsta lægð á leiðinni

„Í framhaldinu af því erum við komin í rólegra vetrarveður, norðlægar áttir og smá él, þá einkum fyrir norðan,“ segir Helga um veðrið næstu daga. 

En svo er útlit fyrir versnandi veður um næstu helgi. „Þá eru líkur á að næsta lægð komi úr suðri með vaxandi suðaustanátt. Eins og þetta lítur út í dag er þetta engin svakaleg lægð en henni mun fylgja snjókoma og slydda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert