Sjónvarpsskjár og plasthleri hrundu úr lofti vélar Primera Air í flugtaki í fyrrakvöld. Vélin, sem var leiguvél, lagði af stað frá Tenerife til Keflavíkur um klukkan sex í gærkvöldi.
Tafir voru á flugferðum Primera Air til og frá Tenerife í fyrradag.
Í skilaboðum sem flugfélagið sendi farþegum var það rakið til vonds veður á Íslandi, en afísa þurfti allar vélar sem komu frá Íslandi áður en þær gátu lagt af stað á ný.
Upphaflega átti vél félagsins að fara í loftið um klukkan þrjú, en farþegum tilkynnt að seinkun yrði á vélinni. Um sexleytið var farþegum hleypt um borð í flugvélina. Það var þó ekki vél merkt Primera heldur leiguvél sem lögð var við hlið hennar.
Að sögn farþega var vélin í eigu spænska leiguflugfélagsins Privilige Style og „eldgömul“. Vélin var nýtekin á loft er plasthlerinn hrundi úr loftinu ásamt sjónvarpsskjá sem hékk úr honum. Á myndbandi sem farþegi tók sjást tvær flugfreyjur bisa við að festa hlerann án árangurs.
Þegar vélin hafði náð fullri hæð tókst loks að festa hlerann. Hún lenti heilu og höldnu í Keflavík um sex tímum síðar.