Áfengismisnotkun aldraðra er falinn vaxandi vandi. Læknar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að vera meðvitað um þessa stöðu og spyrja sjúklinga út í notkun áfengis þegar það er meðhöndlað vegna annarra kvilla. „Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar svo fólk fái réttar sjúkdómsgreiningar, sé vísað í viðeigandi úrræði og þannig aukast líkurnar á að fólk ná heilsu aftur,“ segir Hildur Þórarinsdóttir, læknir á öldrunardeild Landspítalans og SÁÁ í erindi sínu; Áfengismisnotkun aldraðra: Falinn vaxandi vandi, í málstofu um geðlyfjameðferð og fíknivandi aldraðra á Læknadögum í Hörpu í dag.
Áfengisneysla þjóðarinnar hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum en það sýna meðal annars sölutölur áfengis. Drykkjumynstur fólks hefur einnig breyst, fleiri drekka daglega og konur drekka í ríkari mæli en þær gerðu á árum áður. Í jöfnu hlutfalli við aukna neyslu eru sífellt fleiri sem glíma við áfengisvanda og eru aldraðir engin undantekning á því. Til að mynda sóttu 90 einstaklingar sem voru eldri en 60 ára áfengismeðferð SÁÁ árið 2001 en árið 2016 voru þeir 160. „Þessi þróun er í takt við að þjóðin er að eldast,“ segir Hildur.
Á bilinu 10 til 14% af íslenskum karlmönnum á aldrinum 50 til 60 ára og 5% af konum á sama aldri hafa farið í meðferð hjá SÁÁ. Talsverðar líkur eru á að þessi hópur þurfi á læknisþjónustu að halda einhvern tíma í framtíðinni. „Það er Því ekki síður mikilvægt fyrir okkur að spyrja hvers vegna einstaklingurinn drekki ekki áfengi. Manneskjan gæti verið með fíknisjúkdóm og í bata. Þá þarf að taka tillit til þess bata og gefa til dæmis ekki ávanabindandi lyf nema í algjörri neyð og eins hvetja manneskjuna til að bæta í bataprógrammið sitt meðan það gengur í gegnum veikindi.“
„Þetta er falið vandamál og mikil skömm fylgir þessu því fólki finnst þetta tabú. Þess vegna þarf heilbrigðisstarfsfólk að taka sér tak í spyrja út í þessa hluti,“ segir Hildur. Í þessu samhengi bendir hún á að erlendar rannsóknir sýni að aðeins um 7% fólks sem er með fíknivanda er vísað í rétt úrræði sem þeim hentar. En hér á landi er þetta hlutfall betra því aðgengi að meðferð og úrræðum er betra.
Rannsóknir sýna að þrátt fyrir að einstaklingur sé ekki kominn með fíknisjúkdóm þá eykur óhófleg áfengisneysla líkur á ótímabærum dauðsföllum, slysum, ýmsum tegundum krabbameina og gerir aðra sjúkdóma verri viðureignar. Auk þess aukist kvíði og þunglyndiseinkenni. Þá eru nýlegar rannsóknir að sýna að áfengisdrykkja er tengd hrörnun í svæðum sem tengjast minni og fólk sem drekkur kemur verr út úr ýmsum vitrænum prófum samanborið við þá sem drekka ekki.
Hún bendir á að viðeigandi meðferðarúrræði séu til staðar fyrir þennan hóp bæði á vegum SÁÁ og Landspítalans. Læknar geta ávallt vísað skjólstæðingum sínum á göngudeildir til viðtala og einnig innlagnir hjá LSH og SÁÁ. Nú þegar eru sérúrræði hjá SÁÁ fyrir þennan elsta hóp og hægt er að gera enn betur fyrir þennan hóp, að sögn Hildar. Aldraðir eru viðkvæmir í afeitrun og er hættara við fylgikvillum. Eldra fólk svara hins vegar meðferð vel. „Eldra fólk ekki síður en yngra tekur vel við meðferðinni og það vill breyta og tileinka sér nýja hluti,“ segir Hildur.
„Ég vona að það sé að verða meiri vitundarvakning um áfengis- og fíknisjúkdóma meðal hinna eldri. Nemar fá í dag meiri fræðslu í læknadeildinni en var og það er viðurkennt að fíknisjúkdómur er líffræðilegur heilasjúkdómur sem þarf læknisfræðilega hjálp við,” segir Hildur.