Reykjavíkurborg og Rauði krossinn hafa gert samning um að borgin greiði 47 milljónir til starfsemi Vinjar og tryggi þannig athvarf, fræðslu- og batasetur fyrir fólk með geðfötlun. Kostnaður við þjónustu er 42 milljónir króna og fimm milljónir eru vegna húsnæðiskostnaðar.
Í tilkynningu frá borginni kemur fram að markmið samningsins er að tryggja að gestir Vinjar búi við öryggi er varðar þátttöku í félagsstarfi og fræðslu innan Vinjar. Vin er athvarf, fræðslu- og batasetur þar sem áhersla er lögð á notendasamráð og samstarf við aðila sem koma að batamiðaðri þjónustu fyrir fólk með geðfötlun.
Rekstur og þjónusta verður undir stjórn og ábyrgð Rauða krossins í Reykjavík en hann annast rekstur húsnæðisins að Hverfisgötu 47. „Þjónusta Vinjar er mótuð af stöðugu samráði við notendur. Að jafnaði er Vin starfrækt 7 klukkustundir hvern virkan dag og ekki eru færri en tveir starfsmenn til staðar þegar opið er,“ segir í tilkynningu.
Skipaður verður sex manna samráðshópur af velferðarsviði Reykjavíkur, tvo frá hvorum samstarfsaðila og tvo frá gestum Vinjar. Meginverkefni samráðshópsins er að fylgjast með starfseminni og aðlaga starfsemina að þörfum gesta hverju sinni.
Við undirritun samningsins í dag voru samningsaðilar sammála um að starfsemi Vinjar væri dæmi um vel heppnað þverfaglegt samstarf.