„Vinnan hefur gengið vel fram til þessa og samskiptin við bresk stjórnvöld eru góð. Það er mikilvægt að vinna þetta örugglega og þétt.“
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag um vinnu við mat á stöðu Íslands vegna Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Staðan var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.
„Það eru fimm vinnuhópar að störfum og þeir munu skila af sér greiningu á hagsmunum okkar um miðjan mánuðinn. Í kjölfarið mun samtal okkar við Breta halda áfram,“ segir ráðherrann sem segir algjöra samstöðu um mikilvægi þessarar vinnu í ríkisstjórninni.