Ekkert að hugsa um að hætta

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins segist ekki á leiðinni að setjast …
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins segist ekki á leiðinni að setjast í helgan stein á næstunni. mbl.is/ Ómar Óskarsson

Ég er ekkert að hugsa um að hætta, sagði Davíð Odds­son, rit­stjóri Morg­un­blaðsins, sem hefur ekki hug á að setjast í helgan stein á næstunni. „Ég er sjötugur eins og fram hefur komið. Mogginn, hann er 105 ára og ekki hætti hann þegar hann varð sjötugur.“

Þetta sagði Davíð í samtali við þau Ásgeir Pál, Jón Ax­el og Krist­ín­u Sif í morg­unþætti K100 í dag.

Komið var víða við í viðtalinu og kvaðst Davíð sjaldan vera svo snemma á fótum enda B-týpa. „Ég er rallandi frameftir og er að skrifa greinar til eitt – tvö á nóttunni en það er ekki ástæðan fyrir að þær eru svona skrýtnar,“ sagði Davíð og uppskar hlátur þáttastjórnenda. „Ég hafði þó aga á mér þann tíma sem ég var í forsætisráðuneytinu  og mætti tiltölulega snemma þar. Það komu nú oft erlendir menn sem vildu nota daginn vel og maður gat ekki leyft sér hvað sem er. Ég gat ekki sofið bara fjóra tíma á sólarhring eins og frú Thatcher.“

Naut hverrar stundar í borginni

Tími Davíðs sem stjórnandi Herranætur var einnig til umtals, en Jakob Magnússon greindi frá því í gær að Davíð hefði haft mikil áhrif á sig sem leikari í verkinu Bubbi kóngur. „Andstæðingarnir sögðu líka að ég hefði aldrei komist út úr hlutverkinu,“ sagði Davíð. „Ég hef sagt að það sé erfitt að stjórna mér, en þarna var Kári Stefánsson líka og lék allan rússneska herinn og fór létt með.“

Þá hafi hann notið áranna sem hann var í borgarstjórnarmálum, sem hafi verið tími uppgangs í borginni. „Það var gaman í borginni. Ég var níu ár þar og naut hverrar stundar. Ég hafði meira að segja fjarstýringu sem gat kveikt á gosbrunninum í Tjörninni í borgarstjórabílnum,“ sagði Davíð og rifjaði uppi að þannig hefði hann getað strítt þeim sem hringdu í hann og kvörtuðu yfir að gosbrunnurinn væri ekki í gangi. „Ég á fjarstýringuna ennþá en veit ekki hvort hún virkar.“

Þá rifjaði Davíð upp að hann hefði verið gjarn á að sitja niðri í vélamiðstöð með borgarstarfsmönnum þegar verið var að ryðja vegi að næturlagi í ófærð. „Ég sat þar með köllunum alla nóttina. Ég gerði ekkert gagn en ég var þarna og kallarnir vissu af mér,“ segir hann, „og svona verður að gera þetta.“ 

Árvak­ur, út­gef­andi Morg­un­blaðsins, mbl.is og K100, mun af til­efni sjö­tugsaf­mæl­is­ins halda af­mæl­is­hóf hon­um til heiðurs í húsa­kynn­um fé­lags­ins í Há­deg­is­mó­um.

„Davíð á lang­an og far­sæl­an fer­il á op­in­ber­um vett­vangi. Hann sett­ist ung­ur í borg­ar­stjórn og tók við embætti borg­ar­stjóra árið 1982 og gegndi því til 1991 þegar hann sett­ist á þing og tók við embætti for­sæt­is­ráðherra. Davíð lét af embætti for­sæt­is­ráðherra árið 2004 og tók þá við embætti ut­an­rík­is­ráðherra sem hann gegndi í rúmt ár þar til hann tók við embætti seðlabanka­stjóra.

Davíð var seðlabanka­stjóri þar til snemma árs 2009 en þá um haustið tók hann við starfi rit­stjóra Morg­un­blaðsins og mbl.is,“ seg­ir í frétt Morg­un­blaðsins í til­efni af deg­in­um. 

Eins og áður seg­ir held­ur Árvak­ur hóf í til­efni sjö­tugsaf­mæl­is­ins til heiðurs Davíð og eru all­ir vin­ir og vel­unn­ar­ar boðnir vel­komn­ir í húsa­kynni Árvak­urs í Há­deg­is­mó­um í dag á milli kl. 16 og 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert