Sveigja á milli hraðahindrana

Hraðahindranir í borginni hafa lengi verið umdeildar. Ein tegundin sem er lítið notuð í öðrum sveitarfélögum er hönnuð og framleidd hér á landi og er ætlað að vernda fjöðrun strætisvagna fyrir álagi. Hönnunin veldur því að bílstjórar sveigja á milli hindrana sem eykur ekki öryggi að sögn sérfræðings. 

Í myndskeiðinu má sjá hvernig bílstjórar kjósa að sveigja á milli hindrana við Nauthólsveg og Ánanaust en þær eru jafnframt á fleiri stöðum í borginni. 

Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri íslenska hluta Eurorap sem leggur mat á umferðaröryggi víða í Evrópu, segir það ekki vera kost að hægt sé að aka á milli hindrananna. Það geti boðið upp á misskilning og valdið óöryggi. Þá sé nauðsynlegt að hægja of mikið á bílum til þess að valda ekki skaða á fjöðrunarbúnaði þeirra við að keyra yfir hindranirnar sem hafa verið kallaðar „strætókryppur“. 

„Afleiðingin af því er tvíþætt: annars vegar aukinn útblástur og hins vegar aukast líkur á aftanákeyrslum,“ segir Ólafur og bætir við að aðrar aðferðir séu nýttar til að hægja á umferð í flestum öðrum löndum. „Í Prag er búið að fjarlægja allar hraðahindranir og sú þróun er að hefjast í London.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka