Bjóða ferðamönnum nýsteiktar kleinur

Athafnamennirnir ungu höfðu komið sér vel fyrir við Gróttu með …
Athafnamennirnir ungu höfðu komið sér vel fyrir við Gróttu með heimasmíðaðan vagn þar sem þeir gátu boðið upp á nýsteiktar kleinur. Ljósmynd/Ragnheiður Valgarðsdóttir

„Rakst á þessa flottu stráka úti við Gróttu áðan. Keypti af þeim heitt kakó og glóðvolga kleinu sem þeir steiktu á staðnum. Þeir smíðuðu vagninn sjálfir. Náðu að sprengja krúttskala dagsins hjá mér og þeim túristum sem voru á staðnum,“ segir Ragnheiður Valgarðsdóttir í færslu sem fengið hefur töluverð viðbrögð á Facebook.

Ragnheiður segir í samtali við mbl.is. að hún hafi verið stödd úti við Gróttu um fimmleytið í gær með erlenda ferðamenn er þau rákust á þessa ungu athafnamenn. „Þá voru þeir að setja vagninn upp og kveikja  ljósin.“

„Þeir höfðu smíðað vagninn sjálfir með örlítilli aðstoð frá föður sínum og voru með gas þarna undir og eldvarnarteppi til hliðar. Síðan biðu þeir eftir að olían næði réttu hitastigi og steiktu svo þær kleinur sem pantaðar voru.“ Fimm manna hópurinn sem Ragnheiður var í fékk sér allur kakó og nýbakaðar kleinur hjá drengjunum.

„Þetta voru ofboðslega skemmtilegir og kurteisir strákar og stoltir af þessu framtaki sínu,“ segir hún.

Ragnheiður sagði drengina gera ráð fyrir að vera þarna við og við á ferðinni, enda virtist uppátækið njóta hrifningar hjá ferðamönnum. „Það voru fleiri ferðamenn þarna á staðnum og þegar við fórum komu aðrir að og þeir voru þarna eitthvað fram eftir.“

Hún segir strákana hafa verið duglega að spjalla við ferðalanga. „Ferðamennirnir voru svo ánægðir með að vera þarna á þessum stað, með þetta útsýni og að hafa þá svo þarna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert