Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar hefur lýst yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á athafnasvæði á Esjumelum norðan við Leirvogsá.
„Nefndin mótmælir því ef koma skal mengandi iðnaður með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa í Mosfellsbæ og nágrenni,“ segir í fundargerð.
Þar kemur fram að slík starfsemi væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur því svæðið sé skipulagt sem athafnasvæði en ekki iðnaðarsvæði.
Greint hefur verið frá því að starfsemi fyrirtækis sem vinnur að úrgangsmálum og moltugerð verði á landsvæðinu og hafa íbúar Mosfellsbæjar lýst yfir andstöðu sinni við þá fyrirætlun.
„Nefndin mótmælir því einnig harðlega að ofanvatn verði leitt frá Esjumelum í Leirvogsá sem er dýrmæt laxveiðiá og útivistarperla.“
Fram kemur að í ljósi þess að ekki er ljóst hvaða starfsemi verði á Esjumelum hefur nefndin falið umhverfissviði Mosfellsbæjar að óska eftir fundi með fulltrúum Reykjavíkurborgar um málið.