„Við ætlum að berjast fyrir bættu um umferðaröryggi. Umferðin hefur fimmfaldast á síðustu árum á svæðinu og litlar sem engar úrbætur hafa verið gerðar,“ segir Bryndís Harðardóttir sem situr í stjórn félagsins Vinir vegfarandans, um bætt umferðaröryggi í Mýrdalnum. Fyrsti fundurinn var haldinn í fyrrakvöld.
Baráttumálin eru fjölmörg enda ekki vanþörf á að gera úrbætur í vegamálum á svæðinu í ljósi aukinnar umferðar og slysa á svæðinu. Félagið mun meðal annars halda áfram að þrýsta á að lögð verði göng í gegnum Reynisfjall. Með því myndi sparast um 8,5 milljón kílómetra keyrsla á ári á vegum í Mýrdalnum. Sparnaðurinn yrði 1 milljarður á ári, samkvæmt útreikningum að sögn Bryndísar sem bætir við að auk þess myndi kolefnisútblástur í jöfnu hlutfalli við það.
Brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi er einbreið og brýnt að hún verði tvöfölduð, að mati Bryndísar. „Þetta er fyrsta einbreiða brúin sem ferðamenn keyra yfir á leið sinni um Suðurlandið,“ segir Bryndís.
Bryndís bendir einnig á að breikka þyrfti veginn frá Markarfljóti og austur fyrir Vík til að anna þeim umferðarþunga sem er á þjóðveginum. Þjóðvegurinn er sex metra breiður en þyrfti að verða sjö metrar, auk þess eru engar vegaaxlir. Þessi vegur var hannaður á sjöunda áratugnum og því kominn tími til að endurhanna og endurhugsa hann, að sögn Bryndísar.