Eru sammála um nauðsyn betri launagagna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gengur af fundi með aðilum vinnumarkaðarins í …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gengur af fundi með aðilum vinnumarkaðarins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Allir aðilar á þessum fundi voru sammála um að það væri til mikils tjóns fyrir samtal á vinnumarkaði, í tengslum við kjarasamninga, að ekki væri horft á tölur sem menn treysta eða líta sömu augum. Með þessari vinnu er stefnt að því að bæta tölfræði upplýsinga um þróun á markaðnum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að loknum fundi með aðilum vinnumarkaðarins um tölfræðiupplýsingar á vinnumarkaði. Ákveðið var á fundinum að skoða hvernig væri hægt að bæta gagnaöflun um launamál á Íslandi.

„Þarna er verið að horfa til þess hvernig við söfnum gögnunum og tryggjum að úrtakið sem við erum að horfa á gefi sem raunsæjasta mynd af þróuninni. Síðan er annað mál hvernig verður unnið úr þeim og hvernig það fléttast saman við samtalið,“ segir Bjarni. Þá verður m.a. horft til breytinga í Noregi þar sem skattskil eru tengd við gagnaskil.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði það jákvætt að málið væri sett af stað. Ef norska leiðin yrði farin hér á landi myndi það gefa mun betri mynd af launamálum á Íslandi. „Þá væri hægt að nálgast heildarsafn allra launa í landinu nánast í rauntíma, þ.e. mánuð eftir að þau eru greidd út,“ segir Halldór. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tók í sama streng og sagði að það væri nauðsynlegt að fá betri gögn um launaþróun. „Það þarf að afla betri og meiri gagna um launaþróun á vinnumarkaði, það eru heilu atvinnugreinarnar sem ekki eru dekkaðar. Þá hafa menn verið að skoða norska leið í að tengja tryggingagjald og innheimtu þess við gagnaskil varðandi þá launamenn sem verið er að greiða launaskatt af. Það hefur verið farsæl leið hjá Norðmönnum að tengja þetta saman.“

Starfshópur skipaður til að endurskoða kjararáð

Á vef stjórnarráðsins var tilkynnt í gær að ríkisstjórnin hefði, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, ákveðið að skipa starfshóp um kjararáð. Hópnum er falið að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs. Hefur starfshópurinn þrjár vikur til að skila af sér. Hlutverk kjararáðs var ekki rætt á fundinum í gær en spurður segir Bjarni að vinna starfshópsins sé nokkuð opin.

„Ég held að það sé óhætt að segja að uppleggið í þeirri vinnu sé nokkuð opið. Ætlunin er að fara yfir launasetninguna og þróun þeirra hópa, sem heyra undir kjararáð, á undanförnum árum. Velta fyrir sér valkostum um fyrirkomulag þessara mála, mögulegan samanburð við önnur lönd og eftir atvikum að fá tillögur til úrbóta,“ segir Bjarni ennfremur.

Formaður hópsins er Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Auk hans sitja í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu. Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sitja þau Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, og Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins gengur af fundinum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins gengur af fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert