„Þá vil ég heldur borga!“

Bruno Bisig forstjóri svissnesku ferðaskrifstofunnar Kontiki,í einni Íslandsheimsókna sinna.Hann segir …
Bruno Bisig forstjóri svissnesku ferðaskrifstofunnar Kontiki,í einni Íslandsheimsókna sinna.Hann segir sjálfbærni vera þá tegund ferðamennsku sem sé í hvað örustum vexti. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Bruno Bisig kom fyrst til Íslands árið 1991 ferðaðist hann einn um landið á hjóli og fyrstu kynni hans af landinu voru hjólreiðatúrinn frá Keflavík til Reykjavíkur. Í dag er hann forstjóri svissnesku ferðaskrifstofunnar Kontiki reisen og hefur komið með ófáa ferðamenn til landsins.

„Ég var einn á ferð og það var litlar upplýsingar að fá á þeim tíma. Ég keypti bók um vegi Íslands og reyndi svo að nálgast kort fyrirfram svo ég gæti skipulagt leið mína, en ég var 21 árs og allt virkaði svo nýtt og bjart,“ segir Bisig. Í minningunni að minnsta kosti hafi Perlan virst vera fyrir utan borgina, en er hann kom hingað næst með ferðamenn árið 2005 hafi hún verið komin niður í miðbæ.

Miklar breytingar höfðu líka orðið á þeim tíma. „Ekki hvað síst varðandi fjölgun bygginga og alla uppbygginguna í nágrenni Reykjavíkur,“ segir hann. „Í fyrstu ferðinni var ég gott sem einn á veginum þegar ég hjólaði frá Keflavík, rifjar hann upp. „Það var líklega mun öruggara að hjóla þá leið þá en er í dag. Ég tók svo rútuna inn í Þórsmörk og hjólaði Laugaveginn. Það er nokkuð sem ekki var mælt með, en ég gerði það samt,“ segir Bisig og hlær. „Eftir það hjólaði ég Sprengisand að Öskju og að Mývatni.“

Ferðamenn á Þingvöllum. Bisig mælir með að Íslendingar geri meira …
Ferðamenn á Þingvöllum. Bisig mælir með að Íslendingar geri meira af því að stofna þjóðgarða og rukka fyrir aðgengi að þeim. Ómar Óskarsson

Fékk sér eina samloku af hverri tegund

Bisig minnist þess einnig að ekki hafi verið búið að malbika allan hringveginn á þessum tíma og hápunkturinn við komuna að Mývatni hafi verið að koma inn á fyrstu bensínstöðina. „Þeir spurðu mig hvernig samloku ég vildi og ég svaraði eina af hverri gerð. Ég skildi ekkert hvað þeir sögðu því þeir tölu bara íslensku, en ég var svo svangur að ég vildi eina samloku af hverri tegund. “

Í þessari fyrstu ferð sinni um hálendi Íslands naut Bisig þess að hafa sum svæðin alveg út af fyrir sig og segir hann þetta eina mestu breytinguna á ferðum sínum um landið í dag. „Á þeim tíma voru þetta virkilega afskekktir staðir og ég á enn þessar minningar um þá. Þetta er líka nokkuð sem ég myndi ekki endurtaka í dag af því að upplifunin yrði allt önnur.“

Sá mikli fjöldi ferðamanna sem komi til Íslands í dag sé enda áskorun sem Íslendingar og þeir sem starfa í ferðamþjónustu hér verði að vera meðvitaðir um. „Hvernig getur Ísland haldið áfram að vaxa sem ferðamannaland en samt veitt samskonar upplifun og ég fékk? Þetta er stóra áskorunin sem þið standið frammi fyrir,“ segir Bisig. „Landmannalaugar í dag eru til að mynda orðnar svo fjölmennur staður að upplifunin er allt önnur.“

Líkt og fleiri þá bendir Bisig á að vinsældir Íslands séu hluti vandans og því sé ástæða til að kanna hvort ekki sé hægt að stýra ferðamannastraumnum betur. „Ef við tökum fossana sem dæmi, þá eru Gullfoss, Goðafoss, Skógafoss og Dettifoss þeir sem allir heimsækja, en það eru örugglega 100 fossar á landinu til viðbótar. Það mætti gera þá aðgengilega, en þó þannig að umferðinni að þeim væri stýrt. Sjálfur myndi ég svo mæla með stofnun þjóðgarða sem væri rukkað fyrir aðgengi að.“

Erlendir ferðamenn við Gullfoss. Bisig telur að stýra ætti betur …
Erlendir ferðamenn við Gullfoss. Bisig telur að stýra ætti betur aðgengi að fossum landsins og fjölga um leið þeim fossum sem ferðamönnum sem beint að. Í dag séu allir að skoða sömu fimm fossana. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áskorun falin í almannaréttinum

Í dag sé staðan sú að verðlagið sem erlendum ferðaskrifstofum bjóðist hækki árlega um 10-20%, en ágóðinn renni allur í vasa einkafyrirtækja. „Þau [fyrirtækin] gera ekkert til að viðhalda náttúrunni, því það er ekki hlutverk þeirra. Náttúran er hins vegar aðalástæðan fyrir komu ferðamannanna til Íslands.“

Verðgildið felist í náttúrunni og hana þurfi að vernda. „Í því felst hins vegar áskorun, þar sem náttúran er ókeypis samkvæmt hinum norræna almannarétti. En á hann að gilda fyrir alla, eða bara fyrir heimamenn'“ spyr Bisig. „Þetta er mögulega eitthvað sem þarf að breyta.“

Bisig var á meðal fyrirlesara á fundi um ábyrga ferðþjónustu á Hótel Natura í síðasta mánuði og ræddi þar um mikilvægi sjálfbærni, eigi Ísland að halda áfram að blómstra sem ferðamannaland.

Hann segir skorta skilning hér á landi á kröfunni um sjálfbærni, en sú tegund ferðamennsku er að hans sögn sú sem hvað mestur vöxtur er í um þessar mundir.  „Við eigum bara eina náttúru og þegar það er búið að eyðileggja hana þá getum við ekki notað hana lengur.“ Þetta þurfi Íslendingar að hafa í huga og vera meðvitaðir um ástæðu þess að ferðamenn komi hingað.

Ferðamenn í Landmannalaugum að hausti. Bisig segir Landmannalaugar ekki vera …
Ferðamenn í Landmannalaugum að hausti. Bisig segir Landmannalaugar ekki vera sama stað og hann heimsótti 1991 og að það sé áskorun fyrir Íslendinga að viðhalda þeirri upplifun. mbl.is/Árni Sæberg

Því fleiri sem hafa séð því dýrara á það að vera

„Að mínu mati þá hefur Ísland verulega möguleika til að auglýsa sig sem sjálfbært land,“ segir Bisig og nefnir fallvatnsorkuna og heita vatnið. „ Af hverju er Ísland ekki fyrsta land í heiminum þar sem bara eru rafmagnsbílar? Hér er orka alls staðar og það er hægt að koma hleðslustöðvum fyrir úti um allt.“

Þá telur Bisig Íslendinga eiga að vera duglegri að stofna þjóðgarða og rukka fyrir aðgang að þeim, enda eigi þeir að reyna að halda í verðmæti náttúrunnar. „Því fleiri sem hafa séð hana því dýrari á aðgangurinn að vera,“ útskýrir hann. Slíkt hafi til að mynda verið gert á górilluslóðum í Úganda. „Fyrir nokkrum árum kostaði dagurinn 800 dollara, en í dag kostar hann 1.500 dollara.“

Þannig telur Bisig til að mynda ekki úr vegi að rukka fyrir aðgang að Laugaveginum og takmarka um leið aðgang ferðamanna við ákveðinn fjölda á hverjum göngulegg. „Þetta kerfi er notað á Nýja-Sjálandi,“ segir hann og kveðst sjálfur hafa gengið þar. „Mín fyrstu viðbrögð þegar ég heyrði þetta voru: „Þarf ég að borga fyrir að labba!“  en í dag sé ég tilganginn af því að þetta bætti gildi leiðarinnar,“ útskýrir hann. „Seinna gekk ég aðra leið á Nýja-Sjálandi þar sem ekki þurfti að borga og þar voru þúsundir að ganga í röð. Það var ekki upplifunin sem ég vildi. Þá vil ég heldur borga!“

Erlendir ferðamenn við Skógafoss. Það er náttúran sem ferðamenn koma …
Erlendir ferðamenn við Skógafoss. Það er náttúran sem ferðamenn koma hingað til að skoða, en ekki er gert nóg til að viðhalda henni að mati Bisigs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verðið að spá í framtíðina

Bisig bendir á að ekki allt þurfi að snúast um takmarkanir eða fækkun, því einnig sé hægt að bæta við þá ferðamannastaði sem eru á landinu í dag, t.d. með því að stækka svæðið sem þeir ferðamenn sem ganga Laugaveginn fara um.

Upplifunin verði hins vegar alltaf að fela í sér ákveðin verðmæti svo ferðamenn séu reiðubúnir að borga, þóað  vissulega verði alltaf einhverjir sem ekki eru til í að greiða. „Það er líka alveg spurning hvort það eru gestir sem þið viljið fá,“ segir hann. „Þeir eru ekki að koma með fé til Íslands.

Ég set sama spurningarmerki við lággjaldaflugfélög, eru þau kannski að koma með farþega sem vilja eyða litlu?“

Sjálfur kveðst hann kunna vel við Íslendinga, en segir þá þurfa að gera meira af því að horfa lengra fram í tímann. „Þeir eru vanir að búa með náttúrunni, sem er síbreytileg og það endurspeglast í því að skammtímamarkmiðin eru þeim oft ofar í huga,“ segir Bisig.

Fyrir vikið séu Íslendingar ekki vanir að vera að horfa til næstu hundrað ára. „Þeir eru hins vegar frábærir í að bregðast við með skömmum fyrirvara þegar eitthvað gerist,“ bætir hann við og segir viðbragð landsmanna er Eyjafjallajökull gaus til að mynda hafa verið áhrifamikið.

„Það hins vegar er minni áhugi á að ræða framtíðina, t.d. hver staðan verði 2020, en það verður þó að gera það líka.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert