Borgarlína og spítali

Borgarlínan var mál málanna í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hilmar Þór Björnsson arkitekt fjallaði meðal annars um borgarlínuna, samgöngumál og þéttingu byggða. Jafnframt var spítalinn til umræðu og staðsetning hans við Hringbraut sem Hilmar Þór telur ekki rétta staðsetningu fyrir spítalann. Hann er aftur á móti mjög hlynntur borgarlínu.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030 er gert ráð fyrir að 58% notfæri sér einkabílinn í framtíðinni, 12% almenningsflutninga og afgangurinn gangi, hjóli eða noti önnur samgöngutækifæri.

Hilmar hefur sagt að eftir því sem maður kynnir sér betur áformin um uppbygginguna við Hringbraut því meira undrandi verði maður á því að þessu sé haldið áfram.

Það stendur nánast ekki steinn yfir steini í öllu þessu máli. Allar forsendur fyrir staðarvalinu eru brostnar og àætlanirnar standast ekki lengur, segir Hilmar.

„Menn á æðstu stöðum hafa haldið fram í næstum áratug að allar staðarvalsgreiningar og áætlanir bendi á að Hringbraut sé besti staðurinn fyrir Þjóðarsjúkrahúsið. Nú vita allir sem hafa fylgst með umræðunni að þetta er rangt. Og hvað gera menn í því? Þeir bregðast við eins og oft áður með því að svara ekki gagnrýnisröddum,“ segir Hilmar í grein á Eyjunni nýverið og vísar þar í umfjöllun Morgunblaðsins um staðarvalið að undanförnu.

Auk hans tóku þau Eyþór Arnalds, sem stefnir á fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, þátt í umræðum þáttarins. Hvað varðar borgarlínu segir Guðlaug að sveitarfélögin hafi öll samþykkt hana og bendir á að um ólíkar útfærslur sé á ræða – misjafnt eftir svæðum. 

Helga Vala og Eyþór eru sammála um að auka byggð vestast í borginni en um leið þýði það þyngri umferð. Eyþór telur að það þurfi að efla sjálfbærni hverfa borgarinnar og með því verði hægt að jafna umferðarálagið. Hann tekur dæmi af Grandanum þar sem fjölmargar verslanir og fyrirtæki eru til húsa en ekki er löglegt að búa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert