Í lok árs veitti Alþingi 76 einstaklingum ríkisborgararétt. Hinir nýju Íslendingar koma hvaðanæva úr heiminum, til að mynda frá Líbíu, Sýrlandi og Austurríki. Uppruni eins hinna nýju ríkisborgara er þó óvenjulegri en flestra annarra. Það er María Kjarval, en hún er fædd á Íslandi árið 1952. María, sem er dóttir Sveins og Guðrúnar Kjarval, og barnabarn Jóhannesar Kjarval listmálara, ólst upp á Íslandi til 18 ára aldurs.
„Mamma var oft veik og því dvaldi ég mikið hjá móðurafa mínum Helga Hjörvar og móðurömmu Rósu,“ segir María, sem er yngst fimm systkina. Hús þeirra á Suðurgötu 6 er því æskuheimilið í hennar huga, en sjálf fluttist fjölskyldan víða enda mikill húsnæðisskortur á þessum árum, segir María.
Hún flutti til Norður-Jótlands þegar hún var 18 ára gömul. María segist bara hafa ætlað að heimsækja foreldra sína, sem þá voru sestir að á Norður-Jótlandi. „Ég hafði verið á Íslandi um sumarið, en það var ekkert að gera fyrir ungt fólk. Engin vinna eða neitt. Ég ætlaði bara í heimsókn en hef verið þar síðan,“ segir María. Þó að íslenskan sé lýtalaus má greina áhrif dönskunnar lítillega í framburðinum eftir nær hálfa öld á meginlandinu.
„Það er mikið talað um að maður eigi [sem innflytjandi] að samlagast þjóðfélaginu,“ segir María sem segist gjarnan hafa viljað fá danskan ríkisborgararétt til að geta kosið. Á þeim tíma var Dönum þó ekki heimilt að hafa tvöfalt ríkisfang og því þurfti hún að gefa eftir íslenska ríkisborgararéttinn. „En mér var sagt að það yrði auðvelt að skipta aftur ef ég þyrfti á því að halda.“
Það var síðan í tíð Helle-Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, að lögum um ríkisborgararétt var breytt, og frá september 2015 hafa Danir getað fengið tvöfalt ríkisfang. Hún hafi því ákveðið að slá til. „En ég er ekkert á leiðinni heim á pensjón,“ segir María ákveðin. Þetta er bara tilfinningaatriði fyrir mig. Hana dreymir þó um að eignast sumarhús á Íslandi þar sem hún geti haft vinnuaðstöðu.
María starfar sem myndlistarmaður og rekur gallerí í húsi sem hún og maðurinn hennar, sem er danskur, eiga að Nørregade í bænum Frederiksværk á Norður-Sjálandi. Hún viðurkennir að ættartengslin hafi verið þungur kross að bera en afi hennar er, sem fyrr segir, Jóhannes Kjarval, einn þekktasti listmálari okkar Íslendinga. „En maður lærir að lifa með því,“ segir María. Hún segir ekki síður hafa verið erfitt fyrir konu að hasla sér völl í myndlistinni á þeim tíma. Þannig hafi henni verið ýtt í nám í textílhönnun til að byrja með því það nám ætti að henta stúlkum betur. Það var ekki fyrr en hún var flutt til Kaupmannahafnar sem hún hóf að mála en síðan hefur hún ekki lagt pensilinn frá sér.
María hefur komið víða við á ferlinum en myndlistin hefur átt hug hennar alla tíð. „Ég hef meðal annars teiknað skólabækur í Zoologisk Museum og Biologisk Samling,“ segir María. Dýra- og líffræðisöfn, ef danskan bregst blaðamanni ekki. Þá vann hún um tíma sem vörður á Glyptotekinu.
Í fyrra opnaði hún sitt eigið gallerí, þar sem hún selur sína list en stefnan er sett á að selja einnig verk eftir aðra í framtíðinni. María segir Ísland leika stórt hlutverk í list sinni. Margar myndir hennar eru íslenskar landslagsmyndir. „Það eru þær sem gefa mest í vasann,“ segir María og hlær. Hún málar þó aldrei myndir af landslagi nema hafa komið þangað og notið náttúrunnar sjálf.
Fyrstu árin í Danmörku sótti María Ísland sjaldan heim, en síðustu 10-15 árin segist hún hafa komið hingað til lands nokkrum sinnum á ári. Hún sé í góðu sambandi við fjölskyldu sína hér á landi, meðal annars systur sína, Kolbrúnu Kjarval leirlistamann, sem býr á Akranesi og var einmitt útnefnd bæjarlistamaður Akraness í fyrra.
María segir töluvert vesen hafa fylgt því að sækja um ríkisfang. Hún hafi hafist handa strax árið 2015 en síðan þá þurft að standa í „Ég vorkenni útlendingum sem eru að reyna að fá ríkisborgararétt.“ Á endanum hafi hún leitað sér aðstoðar lögfræðings.
Það hafðist þó að lokum, en 29. desember samþykkti Alþingi veitingu ríkisborgararéttarins mótatkvæðalaust. María var þá stödd í París að heimsækja systur sína. „Ég held að þú hafir uppgötvað það fyrr en ég að ég var orðin ríkisborgari,“ segir María að lokum og hlær.