Þrátt fyrir að enn séu um 10 vikur í páska eru páskaegg komin í sölu, alla vega í einni verslun Hagkaupa. Þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði í verslun fyrirtækisins í Skeifunni var búið að koma upp einni appelsínugulri körfu þar sem hægt var að finna lítil páskaegg í stærð tvö.
Samkvæmt starfsmanni búðarinnar sem ljósmyndari ræddi við er þetta smá sýnishorn áður en páskavertíðin hefst, en sem fyrr segir eru enn rúmir tveir mánuðir í páska og eggin nokkuð tímanlega á ferð í þetta skiptið.