„Mér sýnist þetta vera sömu gögn og við sendum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Þetta er ekki nýtt í sjálfu sér,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, spurð hvort gögn sem Stundin fjallar um í tengslum við skipan dómsmálaráðherra í Landsrétt séu rétt.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fékk afhent gögn frá dómsmálaráðuneytinu fyrir helgi að beiðni nefndarinnar til að fara ofan í saumana á skipan dómara við Landsrétt. Sigríður gerði fjórar breytingar á tillögum hæfnisnefndar um dómara við Landsrétt í lok maí. Eins og áður hefur komið fram kom nefndin með 15 dómaratillögur en ráðherra gerði fjórar breytingar.
Sigríður tekur fram að hún fagni því að nefndin ræði skipanina og hefur jafnframt óskað eftir því að fá að koma fyrir nefndina. Hún vill að það verði gert á opnum fundi og í beinni útsendingu.
„Þetta er fullmikil túlkun á þessu. Þetta eru tölvupóstar sem mér bárust aldrei enda var ég ekki í þessum samskiptum,“ segir Sigríður, spurð hvort sérfræðingar hafi varað hana við að ef hún ætlaði að breyta út af lista hæfnisnefndar um dómara við Landsrétt þyrfti hún að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur.
Hins vegar segist hún „kannast við sjónarmið starfsmanna nefndarinnar“. Tveir starfsmenn úr ráðuneytunum, annar úr dómsmálaráðuneytinu og hinn úr fjármálaráðuneytinu, störfuðu í hæfnisnefndinni um dómara við Landsrétt. Sigríður segist hafa rætt við þá sem og fleiri sérfræðinga, þeirra á meðal dósent við Háskóla Íslands.
„Mönnum ber ekki skylda til að rökstyðja sérstaklega, ákvörðun eða tillögu um ákvörðun um að skipa einhvern ekki í embætti. Það er aldrei gert hér á landi. Rökstuðningurinn er bundinn ákvörðuninni sjálfri en ekki ákvörðun sem er ekki tekin,“ segir Sigríður enn fremur um ákvörðunina.
Sigríður bendir á að hún hafi haft skamman frest til að fara yfir málið eða tvær vikur. Hæfnisnefndin hafði tvo mánuði til þess. „Þess vegna taldi ég rétt og skylt að byggja á vinnu nefndarinnar,“ segir Sigríður. Í þessu samhengi bendir hún á að Hæstiréttur hafi komist að því að störf nefndarinnar hafi verið óaðfinnanleg.
„Í rökstuðningi mínum til Alþingis tók ég þá ákvörðun um að gefa dómarareynslunni meira vægi meira en nefndin hafði gert,“ segir Sigríður um ákvörðun sína. Hún bendir á að nefndin hafi látið dómarareynsluna vega jafnvel minna en hún ætti að gera samkvæmt reglunum.
„Í ljósi þess að verið væri að setja á fót nýjan áfrýjunardómstól og mikilvægt að hann gæti starfað klakklaust frá upphafi þá fyndist mér eðlilegt að líta til dómarareynslu,“ segir Sigríður sem telur sig hafa innt nægilega vinnu við að leggja sjálfstætt mat á umsækjendur. Hæstiréttur var ekki sammála því og taldi hana geta rannsakað þetta mun betur.