„Þú ættir að tala við pabba þinn“

Heiða Björg Hilmisdóttir og Katrín Jakobsdóttir á Grand Hótel í …
Heiða Björg Hilmisdóttir og Katrín Jakobsdóttir á Grand Hótel í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Byltingin hefur valdið ótrúlegri hugarfarsbreytingu á skömmum tíma,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á sameiginlegum morgunverðarfundi stjórnmálaflokkanna í morgun. Yfirskrift fundarins var #metoo: Hvað svo?

Katrín sagði að reynslusögur kvenna, sem streymt hafa fram síðustu mánuði, sýni fram á kerfislægt misrétti valds á milli kynja. Eftir að byltingin hófst sé fólk búið að endurhugsa allt. „Karlar hafa velt fyrir sér „var þetta í lagi hjá mér?“ og konur hafa hugsað um hluti sem þær höfðu fært í gleymsku, sem ekki voru í lagi,“ sagði Katrín.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er ný aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og hún verður fjármögnuð að fullu. Ríkisstjórn mun, í samstarfi við sveitarfélögin, gera áætlun um að útrýma kynbundnu ofbeldi.

Forsætisráðherra sagði ánægjulegt að sjá stjórnmálaflokkana koma saman og það sé mikilvægast að allir geri þetta saman. „Það er best að ræða málin í sem breiðustum hópi. Við skulum nýta að við erum ólíkir flokkar og hreyfingar,“ sagði Katrín.

Siv Friðleifsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Siv Friðleifsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf að hlusta á alla

Heiða Björg Hilmisdóttir stofnaði hópinn í Skugga valdsins þar sem stjórnmálakonur hafa deilt reynslusögum af kynferðislegu ofbeldi og áreitni. „Það er dásamlegt hvað við erum öll saman í að breyta þessu sem metoo-byltingin hefur afhjúpað,“ sagði Heiða í morgun.

Hún benti á að um 20 svipaðir hópar hefðu verið stofnaðir og undirtónninn væri alltaf sá sami. Þar væri sagt frá nauðgunum, þukli, káfi eða óviðeigandi athugasemdum. „Einnig er talað um hrútskýringar,“ sagði Heiða. „„Jæja góða. Þú ættir að tala við pabba þinn, hann veit rosalega mikið um málið,““ sagði Heiða er hún tók dæmi af hrútskýringu.

Heiða sagði að stundum væri eins og hugmyndir eða orð kvenna heyrðust ekki. Einnig var rætt um það í pallborðsumræðum og tekið dæmi af því þegar fyrrverandi ráðherra lagði fram mál á Alþingi. Hún kom gríðarlega vel undirbúin, hélt sína ræðu en viðbrögðin voru engin. Um klukkustund síðar kom karlmaður með sömu hugmynd og upp frá því spruttu fjörlegar umræður.

„Við þurfum að hlusta og raddir allra í flokkum þurfa að heyrast. Nýtum tækifærið, komum okkar hugmyndum fram og höldum áfram að breyta samfélaginu,“ sagði Heiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert