Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í leiðtogaumræðum á Alþingi að þingmenn mættu leggja aðeins meira á sig til að bæta braginn á þingstörfunum.
„Það er ósjaldan að maður er spurður í gegnum árin: „Hvernig í ósköpunum nennirðu að standa í þessu þrasi?“ sagði Bjarni og taldi að fleiri hefðu verið spurðir þess sama.
Nefndi hann að með því að bera meiri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og bæta orðræðuna í ræðustól væri hægt að gera umræðuna á þinginu áhugaverðari fyrir almenning.
Bjarni sagði að haga þyrfti þingstörfunum þannig að komandi sveitarstjórnarkosningar yllu sem minnsti truflun og bætti við að það væri gleðiefni að sjá efnahagslegan bata í ríkisfjármálum skila sér á sveitarstjórnarstigið.
Varðandi vinnumarkaðstengd mál sagði hann að ríkisstjórnin hefði látið töluvert til sín taka í samskiptum við vinnumarkaðinn og sagðist ágætlega bjartsýnn á að ríkisstjórninni tækist að höggva á vissa hnúta sem vonandi gætu skapað meiri sátt og stöðugleika á atvinnumarkaðnum.
Jafnframt nefndi ráðherra Brexit-ferlið og sagði Íslendinga eiga þar töluvert mikilla hagsmuna að gæta. Sagði hann vel við hæfi að utanríkisráðherra hefði látið taka saman skýrslu um helstu hagsmuni einstaklinga.
Bætti hann við að tilefni gæti verið fyrir ríkisstjórnina að láta taka saman almenna skýrslu um samskipti Íslands á EES-svæðinu um Evrópusambandið og nefndi að möguleikar gætu komið upp í samskiptum við Evrópusambandið í tengslum við Brexit.
Bjarni sagði útlitið í efnahagsmálum almennt séð vera býsna gott. Einkaneysla hefði aukist um tæp 8% og spáð væri áframhaldandi hagvexti, rúmum 3%.
„Þegar maður horfir til baka er ótrúlegt hvað okkur hefur tekist að gera á sviði efnahagsmála á skömmum tíma.“
Sagði hann að þrátt fyrir aukin útgjöld þá væri hagvöxturinn töluvert mikill, vextir hefðu lækkað og laun hækkað. Þrátt fyrir þetta væri verðbólga við og fyrir neðan viðmiðunarmörk Seðlabanka Íslands. „Þetta er ótrúleg staða sem á sér fá dæmi,“ sagði hann.