„Hvaða erindi átti ráðherra við formann nefndarinnar?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, á Alþingi í dag í fyrirspurn til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra.
Vísaði Helga Vala þar í gögn sem dómsmálaráðuneytið afhenti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í tengslum við skipun dómara við Landsrétt á síðasta ári. Þar væri að finna bréf frá formanni dómnefndarinnar, sem lagði mat á hæfi umsækjenda, til dómsmálaráðherra þar sem fram kæmi að ráðherrann hefði fundað með honum í tvígang.
Vildi Helga Vala fá að vita um efni fundanna. „Hvaða erindi átti ráðherra inn í störf nefndarinnar á meðan hún var enn að störfum, enda á hún að skila faglegri niðurstöðu byggðri á vandaðri stjórnsýslu en ekki taka við skipunum frá ráðherra?“
„Fundir mínir með formanni nefndarinnar voru haldnir af augljósum ástæðum. Ég átti fund með formanni hæfisnefndar til þess að afhenda honum umsóknir sem ráðuneytinu höfðu borist. Í framhaldinu átti ég fund með formanni nefndarinnar þar sem mér voru kynnt drög að umsögnum,“ sagði Sigríður og bætti síðan við:
„Viku síðar var mér afhent umsögnin endanlega og hafði ég engin afskipti, ekki nokkur einustu afskipti af störfum nefndarinnar þótt við höfum átt samtal, formaðurinn og ég, um það hvernig þeim störfum væri háttað. Var mjög upplýsandi fyrir ráðherra að heyra það.“