Pólitískur hávaði og skrípaleikur

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Mér er ekki ennþá ljóst eftir hvaða upplýsingum og gögnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að kalla eða hvaða staðreyndir hún ætlar að fá fram sem ekki eru þegar komnar fram í Hæstaréttarmálinu,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag um Landsréttarmálið svonefnt og vísaði til rannsóknar nefndarinnar á málinu þrátt fyrir að dæmt hafi verið í því af Hæstarétti.

Frétt mbl.is: Markmiðið að koma ráðherranum frá

Vísaði Birgir í frétt mbl.is í morgun þar sem haft er eftir Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, að hann teldi ekki þörf á að rannsaka málið frekar. Full ástæða væri til þess að leggja fram vantrauststillögu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra en þar sem slík tillaga næði líklega ekki fram að ganga nú mætti halda málinu lifandi með rannsókn nefndarinnar og reyna með því að fá þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til að styðja slíka tillögu.

Sagði Birgir að ummælin sem höfð væru eftir Jóni Þóri gæfu tilefni til þess að ætla að tilgangurinn væri ekki að fá fram frekari upplýsingar um málið heldur aðeins „að búa til pólitískan hávaða og skrípaleik.“ Jón Þór teldi þannig að málið væri upplýst að fullu „en af pólitískum ástæðum eigi að halda því lifandi.“ Þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga mótmæltu ummælum Birgis og töldu þau vega að hlutverki nefndarinnar.

„Það er alveg skýr skylda stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvalds og þings og ég frábið mér að vera sett í þá fáránlegu stöðu að ég sé hér uppi til þess að vera í pólitískum leik,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert