Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra tókust harkalega á í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. „Staðreyndin er sú því miður að dómsmálaráðherra hefur skapað vantraust á dómskerfið,“ sagði Jón Þór þar sem hann ræddi Landsréttarmálið.
Jón Þór sagði að dómsmálaráðherra ætti að segja af sér vegna málsins og að það væri eðlilegt að dómsmálaráðherra sem skapaði vantraust á dómskerfi landsins gerði það.
Ef hún gerði það ekki gætu aðrir ráðamenn stigið inn í. „Næstur í ábyrgð er formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, en hann getur skipt um dómsmálaráðherraefni flokksins en gerir það líklega ekki nema undir þrýstingi,“ sagði Jón Þór.
Hann bætti við að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gæti farið fram á það við forseta að skipaður yrði nýr en það myndi líklega kosta stjórnarsamstarfið.
„Alþingi er eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu rétt eins og dómsmálaráðherra er eftirlitsaðili með matsnefndinni sem hann hlýddi ekki. Réttilega voru þar sjónarmið upp og þá þurfti ráðherra að gera það samkvæmt lögum, sem hún gerði ekki,“ sagði Jón Þór.
„Er ráðherra tilbúin að lýsa því yfir hér og nú að hún styðji rannsókn Alþingis á ákvörðunum og verklagi sínu við skipun dómara í Landsrétt?,“ sagði Jón Þór. Hann kvaðst vona að málið yrði rannsakað hratt og vel og það myndi fást botn í hvernig ráðherra fór að málum.
Sigríður sagði að það væri fallinn dómur Hæstaréttar í málinu og hvorki ráðherra né aðrir eigi að þurfa að sæta tvöfaldri málsmeðferð. Hún kvaðst ekki alveg átta sig á því hvernig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að rannsaka sérstaka stjórnskipunarathöfn sem þegar er falinn dómur um.
„Það kann að vera að menn gruni að það verði komist að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur gerði í sínum dómi,“ sagði Sigríður. „Ég er eins og aðrir þingmenn í einhverju myrkri eða hef ekki fullan skilning á meðferðinni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ bætti Sigríður við.
Dómsmálaráðherra benti á frétt mbl.is þar sem Jón Þór sagðist geta haldið málinu lifandi með rannsókn til að fá ráðherra til að axla ábyrgð. „Þar kemur glögglega fram hver tilgangur umfjöllunar nefndarinnar er, minnsta kosti af hans hálfu. Tilgangurinn er sá að koma ráðherranum frá.“
Jón Þór sagði að tilgangur nefndarinnar væri að sjálfsögðu að rannsaka málið og það væri ekki tvöföld málsmeðferð. „Það eru upplýsingar um að ráðherra hafi gert þetta vitandi vits,“ sagði Jón Þór og vísaði þar til umfjöllunar Stundarinnar frá í gær.
Sigríður benti á áðurnefnda frétt frá mbl.is og sagði ummæli hans þar lýsa umræðum um málið á þinginu af hans hálfu. „„Við getum ekki knúið það fram að hún víki strax. En við getum haldið málinu lifandi með rannsókn sem er það líklegasta í stöðunni til að fá hana til að axla ábyrgð,““ sagði Jón í fréttinni og Sigríður las upp í þingsal.