Umræða um dánaraðstoð verði aukin

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Þingmenn sjö stjórnmálaflokka á Alþingi eru flutningsmenn þingsályktunartillögu um dánaraðstoð.

Óskað er eftir því að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið.

Einnig verið athugað hvort í öðrum löndum sem leyfa ekki dánaraðstoð, einkum á Norðurlöndum, í Þýskalandi og Kanada, sé opinber umræða um málið eða unnið að lagabreytingum.

Jafnframt verði gerð skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum.

Flutningsmenn tillögunnar eru Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Hanna Katrín Friðriksson og  Jón Steindór Valdimarsson úr Viðreisn, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, Silja Dögg Gunnarsdóttir úr Framsókn, Björn Leví Gunnarsson Pírati, Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingunni og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Fram kemur í greinargerð að tillagan hafi áður verið lögð fram.

„Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt,“ segir í greinargerðinni, þar sem einnig er minnst á að samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, hafi nýlega verið stofnuð.

„Þingsályktunartillagan felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert