Vald ráðherra fyrst og fremst formlegt

Jakob R. Möller hæstaréttarlögmaður í ræðustól á fundinum í dag.
Jakob R. Möller hæstaréttarlögmaður í ræðustól á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sjö dómarar við Hæstarétt, héraðsdómstóla og Landsrétt voru skipaðir án þess að dómnefnd hafi talið þá hæfasta á meðal umsækjenda um embættin. Þetta sagði Jakob Möller, hæstaréttarlögmaður og formaður dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastörf, á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík um skipan dómara.

Jakob sagði dómsmálaráðherra til þessa því miður ekki hafa sýnt að þeim sé treystandi til þess að fara með skipunarvaldið þegar kæmi að dómaraembættum. Lagði hann til að lög í þeim efnum yrðu óbreytt og að skipunarvald ráðherra yrði fyrst og fremst formlegt. Lagði hann hins vegar til að gerðar yrðu breytingar á stjórnarskránni þar sem ekki væri aðeins kveðið á um að dómendum bæri að fara að lögum heldur gildi það einnig um ráðherra.

Jakob fór ítarlega yfir forsögu skipunar dómara og hvernig staðið hefði verið að málum hér áður fyrr og til þessa dags. Dómarar hefðu iðulega verið skipaðir eftir flokkslínum hér áður á forsendum þeirra sem verið hefðu við völd hverju sinni. Það væru ekki margir áratugir síðan farið hafi verið að gera þá kröfu að hæfasti umsækjandinn yrði valinn.

Tvær leiðir færar við dómaraskipan

Gagnrýndi hann Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir að hafa lýst þeirri skoðun sinni, eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir jól að hún hefði ekki uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga við skipan fimmtán dómara við Landsrétt, að hún væri ósammála niðurstöðunni. Vildi hann meina að sú afstaða væri fáheyrð.

Þannig sagðist Jakob ekki vita til þess að lögfræðingar, hvorki hann né aðrir, hafi lýst því opinberlega yfir að þeir væru ósammála Hæstarétti þegar dómur hefði fallið þótt þeir væru óánægðir með niðurstöðuna. Nauðsynlegt væri að halda Hæstarétti við efnið með hvassri fræðilegri gagnrýni en annað væri að gera honum upp annarlegar hvatir.

Sagði Jakob Íslendinga hafa tvær leiðir þegar kæmi að skipun dómara. Annars vegar að hverfa aftur til fortíðar þar sem skipunarvaldið væri hjá framkvæmdavaldinu og dómarar skipaðir af pólitískum ástæðum eða hins vegar að lögð væri áhersla á málefnaleg sjónarmið og að hæfasti umsækjandinn um dómaraembætti yrði fyrir valinu.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert