Húsvíkingar voru fullvissaðir um það, á fjölmennum fundi á Fosshóteli á Húsavík í dag, að allt yrði gert, sem mögulegt væri, til að umhverfisáhrif kísilvers PCC á Bakka yrðu sem minnst. Forstjóri fyrirtækisins sagði m.a. að verksmiðjan yrði ekki gangsett fyrr en öll tækni og öll tæki virkuðu eins og þau ættu að gera.
Sorgarsaga kísilvers United Silicon í Helguvík hefur ítrekað verið í fréttum en forstjóri PCC á Bakka sagði alls ekki neitt samasemmerki á milli verkefnisins á Bakka og þess suður með sjó. Tæknin í verksmiðjunni á Bakka væri sú besta sem völ væri á.
Besta mögulega tækni
„Allir sem fylgjast með fréttum vita að eitthvað mikið fór úrskeiðis í Helguvík en það er ekki jafnaðarmerki á milli þessara verkefna. Við erum með bestu tækni sem er möguleg til að lágmarka umhverfisáhrif og munum ekki setja í gang fyrr en við verðum sannfærð um að öll tækni og öll tæki séu farin að virka. Þess vegna getum við ekki gefið upp nákvæma dagsetningu, en stefnt er að því að gangsetja fyrri ofn verksmiðjunnar seinni hluta febrúar,“ sagði Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC BakkiSilicon, á fjölmennum fundi á Húsavík síðdegis. „Við höfum notið mikils trausts í nærsamfélaginu og viljum ekki bregðast því trausti. Aðalatriðið er að við ætlum að vanda okkur,“ sagði Hafsteinn. Síðari ofninn verður væntanlega gangsettur í apríl.
Stjórnendur kísilsversins á Bakka kynntu framleiðslu- og gangsetningarferli, auk þess sem farið var yfir ýmislegt varðandi öryggis- og umhverfismál. Þeir svöruðu síðan spurningum áhugasamra fundargesta, m.a. um mögulega mengun og hvernig yrði staðið að urðun, og lofuðu að upplýsingagjöf yrði alltaf mikil.
Hugsanlega lykt til Húsavíkur
Fram kom að fyrstu vikuna, eftir að verksmiðjan verður ræst, mundi nokkur reykur verða sýnilegur. Gangsetningin hefst með forhitun ofna, þá losnar mikill raki úr fóðringu ofnsins sem myndi eyðileggja síupoka í reykhreinsvirkinu og útblæstri er því hleypt út um neyðarskorsteina í upphafi. Miðað við áætlanir ætti allt að vera komið í eðlilegt horf á áttunda degi.
Lykt berst mögulega til Húsavíkur í norðanátt, að sögn talsmanna fyrirtækisins, en ætti þó ekki að valda vandræðum. Teitur Guðmundsson, trúnaðarlæknir fyrirtækisins, sagði að mögulega gæti fólk með undirliggjandi sjúkdóma, til dæmis astma, fundið fyrir óþægindum en hann teldi þó ekki miklar líkur á því.
Verksmiðjan skilur eftir sig umhverfisspor, eins og aðrar slíkar, en mengunarvarnir verða þær bestu sem völ er á, að sögn talsmanna PCC BakkiSilocon. Erlingur E. Jónasson öryggis-, umhverfis- og gæðastjóri, nefndi að Íslendingar væru stórnotendur á kísli, enda efnið notað í fjölda hversdagslegra hluta. „Við getum því verið glöð þegar kísill er framleiddur hér á landi. Þegar framleitt er með raforku, eins og hér, er losunin á koltvísýringi um 5 tonn á hvert framleitt tonn af sílikoni, en þegar rafmagnið er framleitt með kolum er losunin um 16 tonn.“
Hvers vegna eru notuð kol?
Í fréttum hefur töluvert verið fjallað um það síðustu misseri að fyrirtækið muni flytja töluvert til landsins af kolum. Áréttað var á fundinum að kolin yrðu ekki notuð til þess að framleiða rafmagn - það væri beinlínis fráleitt að láta sér detta slíkt í hug. Kolin væru hins vegar nauðsynleg hér, sem i öðrum sambærilegum verksmiðjum, til þess að nauðsynleg efnahvörf ættu sér stað í framleiðsluferlinu.
„Við erum ekki ónæm“
Forstjórinn sagði það ekki skipta starfsmenn fyrirtækisins minna máli en aðra að allt væri eins og það ætti að vera í verksmiðjunni, til dæmis mengunarvarnir. „Hér er starfsemin en hér er líka okkar heimili og barnanna okkar. Við erum ekki ónæmari fyrir því sem kemur frá verksmiðjunni okkar en aðrir íbúar,“ sagði Hafsteinn Viktorsson forstjóri.
Góður rómur var gerður að málflutningi fulltrúa fyrirtækisins og ef marka má fundinn eru íbúar afar jákvæðar í garð verksmiðjunnar á Bakka.