Formaður hæfisnefndar um skipan dómara sagði á fundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík í gær að hann vissi ekki til þess að lögmenn hefðu lýst því yfir að þeir væru ósammála Hæstarétti mislíkaði þeim niðurstaða hans líkt og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði gert fyrir jól þegar rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki sinnt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við skipan dómara við Landsrétt. Einföld leit á netinu sýnir hins vegar að ekkert einsdæmi er að lögmenn lýsi slíkri afstöðu.
Frétt mbl.is: Telur tvær vikur of stuttan tíma
„Ég man aldrei til þess að annað hvort ég eða einhver annar lögmaður sem ég umgengst hafi lýst því yfir að hann væri ósammála Hæstarétti vegna þess að honum hafi mislíkað niðurstaða í einhverju máli. Auðvitað kemur það fyrir að maður er óánægður en ekki það að maður telji sig hafa stöðu til þess að lýsa því yfir að maður sé bara ósammála Hæstarétti og niðurstaðan sé bara röng. Ráðherrann sagði það nú raunar ekki, hún sagðist bara vera ósammála Hæstarétti,“ sagði Jakob R. Möller, lögmaður og formaður nefndarinnar. Dómsmálaráðherra hefur sagt að hann muni þó una niðurstöðu Hæstaréttar.
Jakob sagði að ef lögmenn eða aðrir væru ósáttir með dómsniðurstöðu væri sjálfsagt að þeir gagnrýndu það með rökum eða rökleysu eftir því hvað þeir kysu. „En ég hygg að hver þjóðfélagsborgari, þar á meðal lögmenn, segi mest um sjálfa sig með fullyrðingum um lágar hvatir sem liggi að baki gjörðum sem honum mislíkar.“ Sagði hann mikilvægt að beita hvassri fræðilegri gagnrýni á niðurstöður Hæstaréttar, enda þyrftu dómstólar aðhald, en varast bæri að gera dómurum upp hvatir sem maður vildi ekki að stjórnuðu sjálfum sér.
Meðal þeirra sem hafa lýst sig ósammála Hæstarétti er til að mynda stjórn Lögmannafélags Íslands. Þannig sendi stjórnin frá sér ályktun í lok júní 2013 þar sem fram kom að hún væri „ósammála niðurstöðu Hæstaréttar“ í dómsmáli þar sem heimiluð var framlagning endurrits af hleruðum símtölum sakbornings við tvo lögmenn. Stjórn Lögmannafélagsins skipuðu þá, samkvæmt upplýsingum frá félaginu, lögmennirnir Jónas Þór Guðmundsson, Jóna Björk Helgadóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Karl Axelsson og Guðrún Björg Birgisdóttir.
Frétt mbl.is: „Þetta er glórulaus vitleysa“
Taldi stjórn Lögmannafélagsins niðurstöðu Hæstaréttar hvorki samrýmast ákvæðum sakamálalaga, lögmannalaga, stjórnarskrárinnar, né mannréttindasáttmála Evrópu og benti á að vernd trúnaðarsambands lögmanns og skjólstæðings væri grundvallarregla og nyti sem slík afar ríkrar verndar í sérhverju réttarríki. Lýsti stjórnin yfir vonbrigðum sínum með að málið skyldi dæmt af þremur hæstaréttardómurum í stað fimm og sagðist vona að niðurstaðan væri „mistök“ sem yrðu „leiðrétt við fyrsta tækifæri.“
Fleiri málsmetandi lögmenn hafa í gegnum tíðina lýst sig ósammála Hæstarétti vegna þess að þeir hafa verið ósáttir við niðurstöður hans í dómsmálum, þar á meðal málum sem þeir hafa sjálfir komið að. Þannig lýsti til að mynda Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður sig í mars á síðasta ári ósammála þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að sýkna ríkið af kröfum Vinnslustöðvarinnar vegna sérstaks veiðigjalds sem lagt var á fiskveiðiárið 2012-2013, en Ragnar flutti málið fyrir hönd fyrirtækisins bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.
„Ég tel að rökstuðningur Hæstaréttar sé ekki sannfærandi í umfjöllun dómsins um að málefnaleg rök hafi legið að baki þeirri reglu að sumir megi draga frá álögðu veiðigjaldi fjármagnskostnað sem þeir hafa haft meðan aðrir mega það ekki,“ sagði Ragnar samkvæmt frétt vefritsins Kvótinn.is. Rétturinn teldi gjaldið hóflegt og lögin málefnaleg. „Ég er sem fyrr ósammála þessu mati Hæstaréttar og röksemdir sem fyrir þessu eru færðar duga ekki til að breyta minni skoðun um það. Vandamálið er þá það að dómurinn ræður en ekki ég!“
Frétt mbl.is: Mat nefndarinnar ekki óskeikult
Sú niðurstaða Hæstaréttar að ógilda kosningar til stjórnlagaþings í byrjun árs 2011 var eitt af þeim málum þar sem ýmsir lögmenn lýstu sig ósammála réttinum. Þar á meðal Gunnar Eydal, fyrrverandi borgarlögmaður, á fundi Lögfræðingafélags Íslands, um niðurstöðuna. Sagðist hann ósammála forsendum Hæstiréttar varðandi einn stærsta ágallann á kosningunum að mati réttarins, auðkenningu kjörseðla, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins. Sakaði hann Hæstarétt um að fara ekki eftir rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Þá má nefna að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður ræddi við Lögmannablaðið árið 2008 um mál sem hann rak þar sem rétturinn sakfelldi fyrst en tók síðan málið aftur upp og felldi þá sýknudóm. „Í hinum nýja dómi felst einnig viðurkenning á því að dómarar Hæstaréttar séu ekki óskeikulir. Ég hef ástæðu til að ætla að á meðal margra dómara ríki sú skoðun að dómstólar setji niður ef þeir viðurkenni mistök við dómgæsluna sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu. Ég er þessu með öllu ósammála og tel að virðing almennings fyrir Hæstarétti aukist við það að dómarar viðurkenni að þeim verði á mistök eins og öðrum.“