Vínbúðirnar hafa nú hætt dreifingu á brúnum einnota bréfpokum sem ætlaðir voru fyrir eina flösku. Framkvæmdin er liður í því að gera Vínbúðirnar enn umhverfisvænni, „en við leggjum áherslu á að vera leiðandi í umhverfisábyrgð,“ segir í frétt á heimasíðu ÁTVR.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að brúnu pokarnir hafi verið í umferð í áratugi. Í fyrra var gefin tæplega 1,1 milljón poka en árið áður, þ.e. 2016, var fjöldinn 1,8 milljónir poka og hefur því fækkað um 41% á milli ára.
Sigrún segir ennfremur að líklega sparist 2,3 milljónir króna við þessa ráðstöfnun. „Ég held að það sparist einnig rusl á heimilum landsmanna, þar sem pokarnir lenda líklega oftast sem rusl eða í endurvinnslutunnum,“ segir Sigrún, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.