„Hugmyndin um að RÚV fari af auglýsingamarkaði hefur auðvitað oft komið upp í gegnum tíðina. Það hafa ætíð verið skiptar skoðanir um þá hugmynd og sú er raunin í þessari skýrslu þar sem nefndin klofnar í afstöðu sinni til hugmyndarinnar. Flestir eru þó sammála um að ef RÚV færi af auglýsingamarkaði þyrfti að endurskoða fjármögnun almannaþjónustunnar til að hún geti sinnt þeirri þjónustu sem almenningur væntir og lög gera ráð fyrir. Að auki er dregið fram í skýrslunni að mörg dæmi erlendis frá sýni að mikil óvissa sé um að slík aðgerð myndi skila ávinningi til einkareknu miðlanna,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri um fjölmiðlaskýrsluna sem mennta- og menningarmálaráðherra fékk í hendur í morgun.
Meðal helstu tillagna meirihluta nefndarmanna er að RÚV fari af auglýsingamarkaði og að fjölmiðlar fái allt að 25% endurgreitt af framleiðslukostnaði á fréttum og fréttatengdu efni.
„Ísland er lítið markaðssvæði og ef RÚV yrði tekið út af auglýsingamarkaði er ekki sjálfgefið að fyrirtæki leggi áfram út í umfangsmikla framleiðslu á sjónvarpsauglýsingum fyrir lítinn hluta hins litla markaðar. Og þá er spurning hvort að kakan minnki ekki við þessa tilteknu aðgerð,“ segir útvarpsstjóri.
Magnús Geir segir að skýrslan sé um margt gott innlegg í nauðsynlega umræðu um íslenska fjölmiðla.
„Ég hef áður lýst því hve mikilvægt er fyrir lýðræði og menningu að hafa fjölbreytta flóru einkarekinna miðla við hlið öflugs Ríkisútvarps. Það er leiðarstef í okkar stefnu sem kynnt var í fyrra. Í skýrslunni er samhljómur við það inntak stefnu RÚV. Fjölmiðlalandslagið hefur breyst gríðarlega með tilkomu nýrrar tækni og stórra efnisveitna. Við höfum brugðist við með því að skerpa á hlutverki RÚV og m.a. lagt aukna áherslu á framleiðslu innlends efnis, þar sem erlend afþreying er á hverju strái,“ segir Magnús Geir ennfremur.
Hann bendir á að RÚV sé búið að vera á auglýsingamarkaði um langt skeið, og það sé heldur ekkert einsdæmi. Í öllum löndum Evrópu séu reknir almannaþjónustumiðlar og fjármögnun þeirra sé margvísleg. Fjármögnun með blandaðri leið sé algengust, eins og raunin sé hjá RÚV.
„Reglulegar kannanir staðfesta afar jákvætt viðhorf almennings til RÚV og yfirburðatraust í samanburði við alla aðra fjölmiðla. Ákvarðanir um fyrirkomulag fjármögnunar er fyrst og fremst pólítísks eðlis.“
Útvarpsstjóri telur mikilvægt að líta á skýrsluna sem gott innlegg í umræðuna, sem þurfi að halda áfram. „Við viljum hafa fjölbreytta flóru fjölmiðla. Ég er því fylgjandi að reynt sé að bæta stöðu einkarekinna miðla,“ segir Magnús Geir og segist í fljótu bragði lítast ágætlega á þá tillögu skýrsluhöfunda að fjölmiðlar fái endurgreiddan hluta kostnaður við framleiðslu á fréttaefni. Skoða megi þá leið frekar.
„Við lestur skýrslunnar virðist í fyrstu sýn lítill greinarmunur gerður á milli fjölmiðla, einkum hinna hefðbundnu miðla með ritstjórnum og síðan efnisveitna. Þar er grundvallarmunur sem þarf að taka tillit til. Þegar ákvarðanir um fjölmiðlalandslagið eru teknar þarf að taka þær á grundvelli almannahagsmuna. Við á RÚV erum á fleygiferð að þróa þjónustu RÚV inn í stafræna framtíð til að tryggja að almenningur hafi áfram aðganga að þeirri víðtæku þjónustu sem RÚV veitir. RÚV hefur samfélagslegu hlutverki að gegna og við viljum skapa sem mest verðmæti fyrir almenning,“ segir Magnús Geir og vitnar í því sambandi til aukins samstarfs við framleiðendur sjónvarpsefnis, en í vor mun RÚV byrja að leigja út myndverið í Efstaleiti til sjálfstæðra framleiðenda og annarra miðla.