Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, undirrituðu í dag samstarfssamning sem felur í sér að stjórnvöld og atvinnulífið taka höndum saman um að efla þjónustu við útflutnings- og markaðsmál íslenskra fyrirtækja til að auka slagkraft þeirra á erlendum mörkuðum.
Framkvæmdastjóri SA segir nauðsynlegt að auka útflutning um 1 milljarð króna í hverri einustu viku til að standa undir hagvaxtarspám.
Mun Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins, sinna hlutverki erindreka um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Fram kemur, að samkvæmt samningnum munu Samtök atvinnulífsins veita ráðuneytinu ráðgjöf við undirbúning að stefnumótun og framkvæmd á vegum atvinnulífs og stjórnvalda um enn frekari eflingu stuðningskerfis við útflutning og markaðssetningu Íslands erlendis, auk annarrar ráðgjafar um mikilvæg hagsunamál sem varða íslenskt atvinnulíf. Byggist samstarfið meðal annars á tillögum sem lagðar eru fram í skýrslum á borð við Áfram Ísland og „Utanríkisþjónusta til framtíðar – hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi“.
„Frá því að ég tók við embætti hefur áhersla verið lögð á að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna. Þeim hugmyndum var komið blað í skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar. Með þessu og öðrum aðgerðum erum við að hrinda hugmyndunum í framkvæmd,“ er haft eftir utanríkisráðherra í tilkynningunni.
„Til að viðhalda 3% hagvexti næstu 20 ár þarf að auka útflutningstekjur íslensku þjóðarinnar um 1000 milljarða króna. Íslenskir viðskiptahagsmunir i útlöndum spyrja ekki um rekstrarform. Samvinna atvinnulífsins og íslenskra stjórnarerindreka á erlendri grundu mun ráða miklu um hvort okkur tekst að skapa og nýta viðskiptatækifæri næstu áratuga til að standa undir vaxandi lífsgæðum til lengri tíma. Við vitum hvað við þurfum að gera til að standa undir hagvaxtarspám, við þurfum að auka útflutning um 1 milljarð króna í hverri einustu viku og það mun ekki gerast að sjálfu sér,“ er haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni í tilkynningunni.