Bílum hefur verið lagt inni í gamla hestagerðinu við Kvennaskólann fyrir aftan Fríkirkjuveg 11 síðustu mánuði í óþökk nágranna. Í gegnum tíðina hafa börn nýtt sér svæðið fyrir leik og sem sparkvöll. Dæmi eru um að börn að leik hafi þurft frá að hverfa vegna bílanna sem hefur verið lagt þar. Gerðið er að stærstum hluta friðað enda var það reist snemma á síðustu öld eða á sama tíma og Thor Jensen reisti húsið að Fríkirkjuvegi 11 árin 1907-1908.
Í janúar í fyrra samþykkti Minjastofnun að veita leyfi til að rífa þann hluta veggjarins niður sem er yngstur og lægstur. Ásgeir Ásgeirsson arkitekt óskaði eftir breytingum og lagfæringum á garðveggnum fyrir hönd eigenda Fríkirkjuvegar 11. Það var gert til að auðvelda aðgengi að húsinu og svo að bílar gætu meðal annars snúið við því heimreiðin er þröng.
„Þetta er ekki og á alls ekki að vera bílastæði,“ segir Ásgeir Ásgeirsson spurður út í bílana sem hefur verið lagt á svæðinu. Hann vissi ekki að svæðið væri notað sem bílastæði þegar mbl.is hafði samband við hann. „Ég veit ekki hverjir eru að leggja þarna og væri til í að vita það,“ segir Ásgeir.
Engin áform eru uppi um að svæðið verði nýtt sem bílastæði í framtíðinni. „Við erum með ýmsar hugmyndir um að nýta svæðið meðal annars að endurbyggja gamalt fjós sem var þarna sunnanmegin,“ segir Ásgeir. Fjósið sem um ræðir er lítið, lagreist og varla manngengt og til dæmis yrði hægt að nýta það sem geymslu, að sögn Ásgeirs. Hann tekur fram að þetta eru einungis hugmyndir.
Svæðið hefur ekkert breyst að öðru leyti en skarð hefur verið tekið úr veggnum en það var þökulagt fyrir nokkru.
Frá því Björgólfur Thor Björgólfsson keypti húsið af Reykjavíkurborg árið 2007 hafa margir lýst yfir áhyggjum af því hvaða hlutverk hestagerði fyrir aftan húsið fái. Núverandi eigandi er með leigusamning sem nær yfir gerðið, að sögn Ásgeirs.
Pétur Ármannsson, arkitekt og sérfræðingur hjá Minjastofnun Íslands, segir að þegar stofnunin veitti heimild fyrir því að taka hluta veggjarins niður var ekki kynnt fyrir þeim að bílum yrði komið fyrir á svæðinu. Hann bendir á að leita verði samþykkis Minjastofnunar fyrir því sem yrði komið fyrir innan gerðisins.
„Við höfum haft skoðun á öllu í kringum þetta hús og haft það alveg í gjörgæslu. Við höfum verið mjög afskiptasöm enda er þetta mjög mikilvægt hús,“ segir Pétur. Hann tekur fram að engin breyting verið þar á.
Fyrir tíu árum vöktu Benedikt Erlingsson og Hilmir Snær Guðnason athygli á því að standa þyrfti vörð um hestagerðið í ljósi þeirra lífsgæða sem svæðið hefur veitt kynslóðum barna í Þingholtunum. Þeir vöktu athygli á þessu með því að ríða frá Kópavogi og í gerðið þar sem þeir áðu. Þetta gerðu þeir á 100 ára afmæli hestagerðisins sem Thor reisti árið 1908.