Leggja bílum á leikvelli

Bílum hefur verið lagt í nokkurra mánaða skeið á leikvellinum.
Bílum hefur verið lagt í nokkurra mánaða skeið á leikvellinum. Ljósmynd/Aðsend

Bíl­um hef­ur verið lagt inni í gamla hesta­gerðinu við Kvenna­skól­ann fyr­ir aft­an Frí­kirkju­veg 11 síðustu mánuði í óþökk ná­granna. Í gegn­um tíðina hafa börn nýtt sér svæðið fyr­ir leik og sem spar­kvöll. Dæmi eru um að börn að leik hafi þurft frá að hverfa vegna bíl­anna sem hef­ur verið lagt þar. Gerðið er að stærst­um hluta friðað enda var það reist snemma á síðustu öld eða á sama tíma og Thor Jen­sen reisti húsið að Frí­kirkju­vegi 11 árin 1907-1908. 

Í janú­ar í fyrra samþykkti Minja­stofn­un að veita leyfi til að rífa þann hluta veggj­ar­ins niður sem er yngst­ur og lægst­ur. Ásgeir Ásgeirs­son arki­tekt óskaði eft­ir breyt­ing­um og lag­fær­ing­um á garðveggn­um fyr­ir hönd eig­enda Frí­kirkju­veg­ar 11. Það var gert til að auðvelda aðgengi að hús­inu og svo að bíl­ar gætu meðal ann­ars snúið við því heim­reiðin er þröng.  

Fríkirkjuvegur 11
Frí­kirkju­veg­ur 11 mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

„Þetta er ekki og á alls ekki að vera bíla­stæði,“ seg­ir Ásgeir Ásgeirs­son spurður út í bíl­ana sem hef­ur verið lagt á svæðinu. Hann vissi ekki að svæðið væri notað sem bíla­stæði þegar mbl.is hafði sam­band við hann. „Ég veit ekki hverj­ir eru að leggja þarna og væri til í að vita það,“ seg­ir Ásgeir. 

Eng­in áform um bíla­stæði 

Eng­in áform eru uppi um að svæðið verði nýtt sem bíla­stæði í framtíðinni. „Við erum með ýms­ar hug­mynd­ir um að nýta svæðið meðal ann­ars að end­ur­byggja gam­alt fjós sem var þarna sunn­an­meg­in,“ seg­ir Ásgeir. Fjósið sem um ræðir er lítið, lag­reist og varla mann­gengt og til dæm­is yrði hægt að nýta það sem geymslu, að sögn Ásgeirs. Hann tek­ur fram að þetta eru ein­ung­is hug­mynd­ir.

Svæðið hef­ur ekk­ert breyst að öðru leyti en skarð hef­ur verið tekið úr veggn­um en það var þöku­lagt fyr­ir nokkru.   

Frá því Björgólf­ur Thor Björgólfs­son keypti húsið af Reykja­vík­ur­borg árið 2007 hafa marg­ir lýst yfir áhyggj­um af því hvaða hlut­verk hesta­gerði fyr­ir aft­an húsið fái. Nú­ver­andi eig­andi er með leigu­samn­ing sem nær yfir gerðið, að sögn Ásgeirs.  

Hafa haft húsið í „gjör­gæslu“

Pét­ur Ármanns­son, arki­tekt og sér­fræðing­ur hjá Minja­stofn­un Íslands, seg­ir að þegar stofn­un­in veitti heim­ild fyr­ir því að taka hluta veggj­ar­ins niður var ekki kynnt fyr­ir þeim að bíl­um yrði komið fyr­ir á svæðinu. Hann bend­ir á að leita verði samþykk­is Minja­stofn­un­ar fyr­ir því sem yrði komið fyr­ir inn­an gerðis­ins.     

„Við höf­um haft skoðun á öllu í kring­um þetta hús og haft það al­veg í gjör­gæslu. Við höf­um verið mjög af­skipta­söm enda er þetta mjög mik­il­vægt hús,“ seg­ir Pét­ur. Hann tek­ur fram að eng­in breyt­ing verið þar á.  

Fyr­ir tíu árum vöktu Bene­dikt Erl­ings­son og Hilm­ir Snær Guðna­son at­hygli á því að standa þyrfti vörð um hesta­gerðið í ljósi þeirra lífs­gæða sem svæðið hef­ur veitt kyn­slóðum barna í Þing­holt­un­um. Þeir vöktu at­hygli á þessu með því að ríða frá Kópa­vogi og í gerðið þar sem þeir áðu. Þetta gerðu þeir á 100 ára af­mæli hesta­gerðis­ins sem Thor reisti árið 1908.

Bílunum er lagt á grasigróinn leikvöll.
Bíl­un­um er lagt á grasi­gró­inn leik­völl. Ljós­mynd/​Aðsend
Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert