Sagði Íslendinga vera óttalausa

Guðni Th. Jóhannesson í opinberri heimsókn í Danmörku á síðasta …
Guðni Th. Jóhannesson í opinberri heimsókn í Danmörku á síðasta ári. mbl.is/Golli

Víkingaklappið, þorskastríðin og Hallgerður langbrók voru á meðal umræðuefna Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í ræðu sem hann hélt í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum fyrr í kvöld.

Ræðan var sýnd í beinni útsendingu.

Forsetinn ræddi um hvað hægt væri að læra af góðum árangri Íslendinga á EM í knattspyrnu í Frakklandi sumarið 2016. „Við óttumst engan en berum virðingu fyrir öllum. Þess vegna gátum við unnið sterkari lið og staðið okkur umfram væntingar,“ sagði hann.

Forsetinn stiklaði á stóru í sögu Íslands í ræðu sinni og minntist á fornsögurnar, sjálfstæðisbaráttuna og bankahrunið.

Hann vitnaði í endurminningar Henrys Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er hann undraðist og var fullur aðdáunar yfir baráttu hins litla Íslands gegn stórþjóðinni Bretlandi í þorskastríðunum.

Hann hvatti nemendur Harvard til að kynna sér sögu þorskastríðanna, sem sýni hversu litlar þjóðir geta verið megnugar.

Guðni talaði um leiðtogafundinn í Höfða 1986 og minntist á verkefnið Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, sem forveri hans Ólafur Ragnar Grímsson er í forsvari fyrir.

Jafnframt talaði hann um vandann sem er uppi vegna plasts í hafinu og vonaðist til að fólk áttaði sig á að Ísland viti um hvað það er að tala þegar kemur að þeim vanda og framtíð hafsins.

Gagnrýnisraddir um að Vigdís Finnbogadóttir gæti ekki staðið sig sem forseti sem einstæð móðir voru einnig ræddar í ræðu hans, sem og lög um jafnlaunavottun og #metoo-umræðan.

Forsetinn uppskar mikið lófaklapp að ræðunni lokinni en eftir hana svaraði hann spurningum úr sal. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert