Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill taka skýrt fram í tengslum við #metoo-umræðuna að allir brotaþolar eru skjólstæðingar lögreglu.
„Síðastliðnar vikur og mánuði hafa margir stigið fram og lýst því að brotið hafi verið á þeim í orði og í verki. Konur eru þar í yfirgnæfandi meirihluta. Frásagnirnar eru margar og sumar svo átakanlegar að fólki er verulega brugðið,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
„Sumar ná langt aftur í tímann, aðrar eru nýlegar. Í lýsingum kemur einnig fram að enginn þjóðfélagshópur er undanskilinn og að ætluð brot hafi fengið að þrífast á ólíklegustu stöðum.“
Fram kemur að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telji rétt að taka það skýrt fram að allir brotaþolar séu skjólstæðingar lögreglu. Á lögreglu hvíli rannsóknarskylda fái hún grun eða vitneskju um að brot hafi átt sér stað. Einnig sé það hlutverk lögreglu og ákærenda að svara því hvort ætluð brot kunni að vera fyrnd eða hvernig sönnunarstöðu sé háttað.