Nefnd um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla skilaði af sér skýrslu í vikunni. Ein af þeim tillögum sem þar var sett fram var að birtingar á áfengis- og tóbaksauglýsingum verði heimilaðar, innan þess ramma sem alþjóðlegar skuldbindingar segja til um.
Á Íslandi er sem kunnugt er bannað að auglýsa í fjölmiðlum áfengi og tóbak nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í tillögu meirihluta nefndarinnar er bent á að bannið þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit. Um sé að ræða löglegar neysluvörur á Íslandi og auglýsingar af þessu tagi séu áberandi hluti auglýsingamarkaðar á heimsvísu.
Hins vegar var ekki einhugur innan nefndarinnar um þessa tillögu og skiluðu tveir nefndarmenn, Elfa Ýr Gylfadóttir og Hlynur Ingason, séráliti.
„Er það mat minnihlutans að ekki sé hægt að leggja það til að birtingar á áfengis- og tóbaksauglýsingum verði heimilaðar án þess að áður fari fram ítarleg rannsókn og greining á mögulegum afleiðingum slíkra tillagna á lýðheilsu almennings og þá sérstaklega lýðheilsu barna og ungmenna,“ segir meðal annars í áliti þeirra.
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, tekur undir þessi varnaðarorð.
„Við höfum sagt það að stjórnvöld og þeir sem móta stefnuna í þessum málum eigi að hlusta á sérfræðinga og nota sér þá þekkingu sem er til staðar í þessum málaflokki. Það er fyrsta skylda þeirra sem móta stefnuna,“ segir hann.
„Ef þú horfir til þeirra landa sem við berum okkur saman við þá blasir við að markhópurinn er ungmenni. Áfengisauglýsingum er miðað á ungt fólk af því það eru bestu kúnnarnir og verða kúnnar lengi.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.