Flughált er á veginum sem liggur upp í Bláfjöll að sögn vegfaranda sem hafði samband við mbl.is. Þar eru margir bílar í vandræðum í hálkunni en ekki er vitað til þess að nein óhöpp hafi orðið. Vegfarandinn segir að ökumenn á illa búnum bílum, eða á ónegldum dekkjum, eigi þarna ekkert erindi.
Uppfært kl. 10:19
Vegagerðin hefur lokað veginum en margir hafa lent í vandræðum í hálkunni, m.a. bíll sem var sendur til að salta götuna. Að sögn vegfaranda þverar bifreiðin veg á einum kafla. Fram kemur á Facebook-síðu skíðasvæðisins, að nú sé ófært vegna hálku upp í Bláfjöll. Verið er að vinna við söndun á veginum og nýjar upplýsingar koma um leið og við vitum meira.
Að sögn Vegagerðarinnar er víða greiðfært á Suður- og Suðvesturlandi á helstu leiðum en hálka eða hálkublettir á útvegum og sumstaðar flughált. Éljagangur er á fjallvegum. Lokað er um Krísuvíkurleið.
Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og víða flughált.
Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Þæfingur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Snjókoma og þoka er víða á sunnanverðum Vestfjörðum. Flughált er á Ströndum.
Á Norður- og Austurlandi er hálka á flestum leiðum og þar er einnig sumstaðar flughált.
Með Suð-austurströndinni eru hálkublettir en að mestu greiðfært.