Staða innflytjenda á Íslandi, jafnrétti, verkefni ríkisstjórnarinnar og komandi sveitastjórnarkosningar var á meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, tæpti á í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í dag.
Undanfarið hefur ríkisstjórnin átt nokkra fundi með aðilum vinnumarkaðarins um stöðuna þar. Þeir fundir hafa verið upplýsandi, að sögn Katrínar. Á þeim síðasta var talsvert rætt um húsnæðismál. Það mun verða eitt af áherslum í komandi sveitastjórnarkosningum.
Hún benti einnig á þá erfiðu stöðu að allt frá níunda áratug síðustu aldar hefði ekki verið sátt um hvernig ætti að safna launatölfræði og hvernig ætti að vinna með þau gögn. Það væri erfitt að vinna saman ef fólk væri „ekki sammála um undirstöðurnar," segir Katrín.
Nýlegar fréttir af stöðu innflytjenda, barna jafnt sem fullorðinna eru sláandi, að sögn Katrínar. Hún vísaði meðal annars til árásarinnar sem ungur hælisleitandi varð fyrir á Litla-Hrauni, frásagna kvenna af erlendu bergi brotnu um mismunun og ofbeldi í samfélaginu í kjölfar #metoo umræðunnar.
„Jafnrétti snýst ekki bara um jafnrétti kynjanna við viljum jafnrétti fyrir alla,“ sagði Katrín og tók fram að unnið væri að þessum málefnum innan flokksins. „Það eru alveg nógir sem tala um aðgreiningu milli okkar. Þetta er risaverkefni sem við getum öll verði sammála um að fara í,“ sagði Katrín.
Hún ræddi einnig um verkefni ríkisstjórnarinnar og tæpti á helstu málunum en tók fram að eitt af þeim stærstu tengdust umhverfis- og náttúruvernd og að gera Ísland kolefnishlutlaust.
Sveitastjórnarkosningar eru í vor og hvatti hún til þess að boðið yrði fram sem víðast á landinu.