Ekki gott að hafa dóm á bakinu

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

„Það er augljóslega ekki gott fyrir nokkurn ráðherra að hafa hæstaréttardóm á bakinu. Þú lendir í stormi, hvort sem það er í þinginu eða fjölmiðlum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um landsréttarmálið í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Hann bætti við að landsréttarmálið eigi ekki að koma í veg fyrir að dómsmálaráðherra geti gegnt starfi sínu. 

Hann sagði það skjóta skökku við að ýmsar hæfnis- og úrskurðarnefndir hafi verið stofnaðar sem ráðherrar hafi ekkert með að segja á sama tíma og þeir eigi að bera ábyrgð á niðurstöðum þeirra. Það samræmist ekki stjórnskipun landsins.

Sigurður nefndi að Ísland hafi farið úr því að vera með allt of mikið ráðherraræði fyrir mörgum áratugum yfir í það að færa valdið frá ráðherrunum.

Hann talaði um ákveðinn grunnvanda sem væri uppi og að löggjöf valdi því að menn geti innan stjórnskipunarinnar geti tekist á um völd en alltaf skuli ráðherrann taka ábyrgðina á því.

Spurður hvort landsréttarmálið dragi ekki úr trausti sagði Sigurður Ingi að málið muni eflaust hafa þær afleiðingar að umræðan um dómsmálaráðherra muni oft tengjast því að fallið hafi dómur.

Þörf á sextíu milljörðum 

Hvað samgöngumálin varðar sagði Sigurður Ingi að um 20 milljörðum væri í dag úthlutað til vegamála en að sú tala þurfi að hækka umtalsvert.

Einnig kvaðst hann telja að í framtíðinni verði afnotagjöld innheimt af tilteknum vegum, eins konar veggjöld, þar sem kubbur er í bílnum sem nemur hvert er ekið. Bílstjórinn fái síðan reikning sendan til sín eftir afnotum.

Sigurður Ingi sagði að 60 milljarða þurfi til að bæta helstu vegi í kringum höfuðborgarsvæðið.

Inni í þessari tölu er tvöföldun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum, að lokið verði við að tvöfalda Reykjanesbraut og Suðurlandsveg að Selfossi. Einnig er inni í tölunni möguleg tvöföldun Hvalfjarðarganga og ný brú yfir Ölfusá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert