Bjarni Salvar Eyvindsson var aðeins 19 ára gamall þegar hann lést af slysförum í fjallgöngu á Table Mountain við Höfðaborg í Suður-Afríku, þann 18. febrúar á síðasta ári. Hann varð viðskila við tvo félaga sína, féll niður af útsýnissyllu og lést.
Bjarni ætlaði að dvelja í Suður-Afríku í tvær vikur og sinna þar sjálfboðastarfi á vegum samtakanna Norður-Suður í fátækrahverfum í útjaðri Höfðaborgar. Hann hafði verið úti í rúma viku þegar hann lést, en hafði á örskömmum tíma náð að heilla alla upp úr skónum; munaðarlaus börn, aðra sjálfboðaliða, umsjónarmenn starfsins og alla hina sem hann komst í kynni við.
Norður-Suður sjálfboðaliðasamtökin eru rekin af Lilju Marteinsdóttur og eiginmanni hennar, en þau eru búsett eru ásamt þremur börnum sínum rétt fyrir utan Höfðaborg. Sjálfboðaliðarnir búa á heimili þeirra á meðan þeir sinna ýmis konar sjálfboðaliðastarfi í fátækrahverfum borgarinnar og Lilja tengist þeim gjarnan sterkum böndum. Bjarni var engin undantekning, þrátt fyrir að dvöl hans hafi verið stutt.
Lilja hefur nú komið á fót góðgerðarsamtökum í samstarfi við foreldra hans þar sem minningu hans verður haldið á lofti í gegnum verkefni sem voru honum hugleikin. Samtökin nefnast Big B, en Bjarni hafði fengið það viðurnefni hjá börnunum í fátækrahverfinu.
„Bjarni var hjá okkur í fyrra og hann lést af slysförum. Það var ótrúlega erfið lífsreynsla og ég var lengi að hugsa um að hætta því sem ég hafði verið að gera. Þetta tók mjög á fyrir mig persónulega. Þetta var mjög erfiður tími, en ég fékk rosalega mikinn stuðning frá fjölskyldunni hans Bjarna. Þau komu hérna út og við tengdumst rosalega nánum böndum, bæði föður- og móðurfjölskyldan hans. Við höfum verið í miklu sambandi og þau hafa gefið mér styrk og hvatt mig áfram,“ segir Lilja í samtali við mbl.is
„Í samstarfi við þau ákváðum við að fara af stað með Big B góðgerðarsamtökin til að geta hafist handa við þau verkefni sem við viljum vinna til að heiðra hans minningu. Ég hefði aldrei getað gert þetta án fjölskyldu hans, bæði hvað varðar fjárhagslegan og andlegan stuðning,“ segir Lilja þakklát. Hún hefur rekið Norður-Suður samtökin um tveggja ára skeið en þau hafa alltaf verið í samstarfi við aðra aðila með verkefni, eins og að aðstoða á munaðarleysingjaheimilum og leikskóla. Það hefur hins vegar alltaf verið draumur að fara af stað með eigið verkefni frá grunni. Sá draumur er nú að rætast. Lilja tekur þó fram að sjálfboðaliðar á þeirra vegum muni áfram sinna sjálfboðastarfi á þeim stöðum sem þeir hafa gert. Hin verkefnin bætist einfaldlega við.
„Við höfum ákveðið að árið 2018 verði árið okkar. Í næsta mánuði verður liðið ár frá því Bjarni lést og markmiðið var að vera komin af stað með verkefnin á þeim tíma. Við fengum styrk úr minningarsjóði Bjarna og frá fjölskyldu hans til að kaupa farartæki svo við getum boðið börnum úr fátækrahverfunum upp á vettvangsferðir og við erum byrjuð á því,“ segir Lilja, en skömmu eftir að Bjarni lést stóð fjölskylda hans fyrir söfnun vegna jarðarfarar og öðrum útgjöldum tengdum andláti hans, en hluti af því fé rann í Big B samtökin. „Það gerði okkur kleift að starta verkefninu.“ Þá styrkti Ungfrú Ísland einnig verkefnið í upphafi með fjármagni sem safnaðist í söfnunarátakinu Beauty with a purpose.
„Svo erum við að hefjast handa við að koma á fót miðstöð þar sem við munum reka lítinn leikskóla og daggæslu eftir skóla. Við ætlum einnig að vera með tölvu- og enskukennslu fyrir konur og aðstoða þær við að byggja upp sjálfstraust og styrkja sjálfsmynd þeirra. Við vonumst til að fá fleiri sjálfboðaliða til okkar til að vinna með okkur að okkar eigin verkefnum. Vonandi fáum við líka samstarfsaðila til að vinna með okkur að verkefnunum.“ Lilja segir erfitt að fá styrki og stuðning við verkefnin úti í Suður-Afríku og því leiti hún heim til Íslands eftir aðstoð.
„Þetta er búið að vera mjög erfitt ár fyrir alla sem koma að, en ég veit að það hefur gefið fjölskyldu Bjarna mikinn styrk að minning hans lifi áfram hérna úti. Það er fjölskyldunni ómetanlegt og hefur gefið þeim tilgang í sorginni að fá að fylgjast með. Verkefnið er sett upp þannig að við hugsuðum hvað hann myndi vilja gera. Hann vann til dæmis í félagsmiðstöð heima á Íslandi. Okkur fannst því mikilvægt að geta boðið börnum upp á prógramm eftir skóla. Hann átti sjálfur erfiða æsku og hann langaði að hjálpa fólki og gleðja það.“
Lilja segir sjálfboðastarfið einstaklega gefandi og að fólk öðlist gjarnan nýja sýn á lífið við að taka þátt.
„Þetta er mikil lífsreynsla fyrir þá sem koma. Þetta breytir mjög miklu fyrir krakkana hér, en það er ótrúlegt hvað þetta hefur mikil áhrif á sjálfboðaliðana líka.“ Lilja segir fólk á öllum aldri koma í sjálfboðastarfið, en ungt fólk hafi þó verið mest áberandi. „Við fáum líka fullorðið fólk. Það komu til dæmis til okkar hjón sem voru að glíma við sorg heima á Íslandi, þau höfðu misst barnið sitt og komu hingað til að ná áttum. Það gefur mér mjög mikið ef fólk fer heim með aðra sýn á lífið.“
Margir sjálfboðaliðana halda sambandi eftir að heim er komið og vilja fá að fylgjast með starfinu sem er verið að vinna. „Þeir eru jafnvel að skrifa bréf til krakkana sem þeir höfðu aðstoðað.“
Lilja segir fólk með lífsreynslu af ýmsum toga sérstaklega velkomið í sjálfboðastarfið. Hún bendir á að fólk á fertugs- og fimmtugsaldri, jafnvel eldra, geti vel sinnt slíku starfi. Það sé alls ekki bara fyrir ungmenni. „Fólk dreymir oft um að gera eitthvað svona en er búið að loka á drauminn vegna aldurs, en það er svo mikilvægt að fá fólk sem er komið með einhverja lífsreynslu.“
Big B góðgerðasamtökin reiða sig eingöngu á frjáls fjárframlög frá almenningi og fyrirtækjum og segir Lilja öll framlög renna óskipt til starfsins:
Big B, félagasamtök
Kennitala: 461117-0580
Reikningur : 0133-26-013324