Eiga stóran þátt í fækkun banaslysa á sjó

Álag á björgunarsveitir hefur aukist mikið síðustu ár.
Álag á björgunarsveitir hefur aukist mikið síðustu ár. mbl.is/Eggert

Slysavarnarfélagið Landsbjörg fagnar 90 ára afmæli í dag, en Slysvarnarfélag Íslands var stofnað þann 29. janúar 1918 og markar stofnun þess upphaf skipulags björgunar- og slysavarnarstarfs á Íslandi.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir gríðarlegar breytingar hafa orðið á starfsemi sveitarinnar í takt við þjóðfélagið á þessum 90 árum og félagið hafi jafnframt tekist á við ýmsar áskoranir.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Félagið var stofnað vegna mikillar þarfar í kjölfar tíðra sjóslysa og mikilla mannskaða. Það er grunnurinn að stofnun Slysavarnarfélags Íslands á sínum tíma,“ segir Jón Svanberg í samtali við mbl.is, en hann bendir á að gríðarlegur árangur hafi náðst á þeim vettvangi á síðustu árum.

Árangurinn vekur athygli á erlendri grundu

„Fyrir 90 árum voru Íslendingar sennilega með hæst hlutfall drukknana hjá sjómönnum miðað við önnur lönd sem við berum okkur saman við, en nú eru komin fjögur ár; 2008, 2011, 2014 og 2017 þar sem ekkert banaslys hefur orðið á sjó í kringum Ísland. Við teljum okkur eiga ansi stóran hlut í því með stofnun og tilkomu slysavarnarskóla sjómanna, sem er stærsta forvarnarverkefni sem þetta félag hefur staðið fyrir. Fyrir 90 árum hefði það sennilega verið óraunhæf draumsýn að horfa á banaslysalaust ár á sjó.“

Jón Svanberg segir árangurinn svo góðan að hann veki athygli á erlendri grundu. „Þegar við erum að segja frá þessu erlendis þá eru allir gapandi yfir þessu. Staðreyndin er sú að samkvæmt upplýsingum frá alþjóðaheilbrigðisstofnuninni þá drukkna um 370 þúsund manns í heiminum á hverju ári,“ segir hann, en bendir þó á að þær tölur eigi við um allar drukknanir, ekki bara á sjó. „Íslendingar hafa engu að síður náð gríðarlegum árangri þarna sem eftir er tekið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir það líka hafa verið mikið framfaraspor þegar samtök björgunarsveita sameinuðust í Slysavarnarfélag Landsbjargar árið 1999.

Finna fyrir álaginu vegna slakra innviða

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að álag á björgunarsveitirnar hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum, meðal annars vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna og fjölgunar íslensku þjóðarinnar. En það kemur fleira til. „Innviðirnir okkar sitja kannski svolítið eftir í þessu öllu saman; vegakerfið, löggæslan og heilbrigðiskerfið. Við finnum alveg fyrir því hvernig þetta álag birtist þegar það er ekki réttur taktur í öllu.“

mbl.is/Eva Björk

Jón Svanberg segir ekki mörg ár síðan að sveitirnar fóru eiginlega bara í sumarfrí í lok maí og hófu svo vetrarstarf aftur að hausti. Nú er menn hins vegar að allt árið um kring og sveitirnar fara að jafnaði í þrjú til fjögur útköll á dag, alla daga.

Aðspurður segir hann nýliðun í stærstu sveitunum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, alltaf ganga vel og ásóknin sé mjög mikil. Það séu alltaf einhverjir tugir nýliða sem hefji nýliðaprógramm á hverju ári. Í minni sveitum sé staðan hins vegar öðruvísi. „Litlar sveitir úti á landi búa við fólksfækkun og þar er lítil endurnýjun. Þetta er því svolítið á herðum sömu aðila árum og áratugum saman jafnvel. Sveitirnar eru líka eins misjafnar að uppbyggingu og tækjabúnaði eins og þær eru margar. Við erum með alla flóruna í þessu. Það er nú samt þannig að mikilvægustu sveitirnar eru oft þær minnstu. Þar sem þorp og stór svæði lokast af dögum og jafnvel vikum saman í verstu vetrarveðrunum og þá reynir hvað mest á þessar sveitir.“

Þegar líf liggur við hjálpast allir að

Hann segir mörg dæmi um að félagar í björgunarsveitum hafi sinnt útköllum áratugum saman og einhverjir séu komnir vel yfir sjötugt og ennþá öflugir. „Menn hætta aldrei alveg. Við finnum það þegar við förum í stórar og mannaflsfrekar aðgerðir. Þá erum að sjá fólk sem hefur kannski ekki verið mikið í starfinu undanfarin ár. Þegar líf liggur við þá eru allir tilbúnir að koma og hjálpast að.“

mbl.is/Eggert

Afmæli Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður fagnað um allt land í kvöld, en allar einingar innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða með afmælisveislur á sínum heimaslóðum. Veislurnar hefjast allar klukkan 20. Klukkan 20:30 verður streymt frá hátíðarstjórnarfundi félagsins og hægt verður að fylgjast með honum á netinu. Klukkan níu í kvöld verður svo hvítum sólum skotið á loft um allt land. „Það verður talið niður í það í gegnum talstöðvarkerfi og fer vonandi allt upp á sama tíma,“ segir Jón Svanberg.

mbl.is/Eggert
Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert