Lyfjastofnun hefur til skoðunar hvernig mögulegt er að takmarka aðgengi aðópíóíðum, segir skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu varðandi ummæli Ólafs B. Einarssonar, sérfræðings í lyfjateymi embættis landlæknis, á mbl.is í síðustu viku.
Ólafur sagði á mbl.is að meginvandi vegna ávanabindandi lyfja á Íslandi verði ekki leystur nema settar verði meiri skorður á aðgengi einstaklinga að ávísunum og önnur úrræði efld.
„Von er til þess að með nýrri reglugerð um gerð lyfseðla sem tekur gildi í apríl ásamt meira eftirliti og notkun lækna á lyfjagagnagrunni muni ástandið batna. Sá hópur lækna sem ávísar óhóflega er ekki stór og flestir hafa sett sér vinnureglur sem þeir fara eftir, leiðbeiningar embættis landlæknis eru ágætar til þess,“ sagði Ólafur B. Einarsson.
Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að í apríl mun taka gildi reglugerð um afgreiðslu og afhendingu lyfja, sem þrengir að ávísunum svokallaðra ópíóíða. Lyfjastofnun hefur einnig til skoðunar hvernig mögulegt sé að takmarka aðgengi að ópíóíðum.
Innan ráðuneytisins verður stofnaður starfshópur með það hlutverk að móta tillögur um hvernig hægt sé að draga úr mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Þessi mál eru því í skoðun innan heilbrigðisráðuneytisins, segir í svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is.
Tæplega þriðjungur þjóðarinnar fær ávísað ávanabindandi lyfjum á hverju ári frá rúmlega tvö þúsund læknum. Flestir einstaklingar fá aðeins lítilræði af lyfjum en sá hópur sem fær óhóflega skiptir hundruðum.
Til að bæta eftirlit með lyfjaávísunum var settur á laggirnar lyfjagagnagrunnur árið 2006 en þrátt fyrir tilkomu hans héldu ávísanir áfram að aukast. Með tilkomu grunnsins var betur hægt að bera lyfjaávísanir á Íslandi saman við aðrar þjóðir en einnig að upplýsa lækna eða gera athugasemdir vegna ávísana þeirra.
Fyrir þá einstaklinga sem fara á milli lækna var lítið hald í lyfjagagnagrunni en vandinn fólst í því að koma upplýsingunum til lækna sem var seinvirkt í gegnum síma eða með bréfaskiptum.
Í dag hafa læknar beinan aðgang að upplýsingum um lyfjaávísanir í rauntíma ásamt því að sjá það sem sjúklingur á af lyfjum í lyfseðlagátt.
Þrátt fyrir tilkomu lyfjagagnagrunns heldur heildarmagn ávísaðra tauga- og geðlyfja áfram að aukast á Íslandi og munurinn verður meiri miðað við aðrar þjóðir. Ljóst er að eftirlit eitt og sér kemur ekki til með að snúa þessari þróun, hér þarf að breyta þjónustu við sjúklinga og samfara því þarf lyfjamenning landans að breytast,“ segir Ólafur.
Um helgina var greint frá því að fimm einstaklingar hafi látist af völdum ofneyslu lyfja það sem af er árinu.