Tími þess að styrkja íslenskt menningarefni í gegnum einn miðil í eigu ríksins er löngu liðinn, segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á Facebook. Sjálfur muni hann ekki styðja að aukin útgjöld verð veitt úr ríkissjóði í fjölmiðlarekstur.
„ Nú er verið að ræða alvarlega að skattgreiðendur leggi til fjármuni til að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla. Nú þegar leggja skattgreiðendur til vel á fimmta milljarð í fjölmiðlarekstur,“ segir Brynjar í færslu sinni og bætri við að vissulega farið þeir fjármunir allir í einn fjölmiðil. „Sjálfur er ég ekki fráhverfur því að styrkja íslenskt menningarefni í ljósvakamiðlum. En af hverju það verður að gerast í gegnum einn miðil í eigu ríkisins verður sífellt erfiðara að skilja. Kannski voru einhvern tíma rök fyrir því en sá tími er löngu liðinn.“
Þó að margir séu uppteknir að því að jafnræðis sé gætt, ekki síst þegar komi að samkeppnisrekstri, þá virðist sú hrifning ekki ná til fjölmiðlareksturs. „Skýringin er sennilega sálræns eðlis. Þegar einhver er risastór og búinn að vera lengi með okkur höldum við að hann sé ómissandi og allt fari til andskotans verði breyting á.“
Sjálfur muni hann ekki styðja aukin útgjöld úr ríkissjóði í fjölmiðlarekstur. „Ef styðja á við einkarekna fjölmiðla verður að draga sambærilega fjárhæð frá útvarpsgjaldinu til ríkismiðilsins. Sjálfur teldi ég best að allt útvarpsgjaldið færi í sérstakan sjóð þar sem allir á markaði sem vildu búa til íslenskt menningarefni gætu sótt í.“