Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, steig í pontu á Alþingi og óskaði eftir því að þingmenn fengju að vita fyrr hvaða mál verða á dagskrá þingsins.
Það myndi auðvelda allan undirbúning fyrir þau mál sem eru tekin á dagskrá.
„Ég veit ekkert hvaða mál verða á dagskrá á morgun,“ sagði Halldóra og bætti við: „Ég get ekki unnið á kvöldin, ég er bara búin á því á kvöldin, búin að svæfa krakkana og fleira.“
Hún sagði það sýna virðingu við þingmenn að geta haft dagskrána tilbúna fyrr.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði gagnrýni sem þessa oft réttmæta. Í þessu tilviki eigi hún þó ekki rétt á sér því dagskrá fundarins í dag hafi legið fyrir á föstudaginn.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Alþingis, beindi því til þingmanna að líta í eigin barm. Þingmenn þurfi að koma sér betur saman um hversu mikinn tíma þeir vilji áætla í umræður.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði gagnrýni Halldóru réttmæta. „Eigum við ekki bara að gera þetta betur?“ spurði hann og óskaði eftir því að fá dagskrána fyrr í framtíðinni.