„Ég tek auðvitað ábyrgðina“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég hafði engan möguleika á að fresta málinu. Ég hafði bara tvær vikur. Alþingi hefði geta gert það,“ sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við Kveik. Þar var Landsréttarmálið til umfjöllunar en Sig­ríður gerði fjór­ar breyt­ing­ar á til­lög­um um dóm­ara við Lands­rétt í lok maí.

Hæfnisnefnd­ kom með 15 dóm­ara­til­lög­ur en ráðherra gerði fjór­ar breyt­ing­ar.

Stundin greindi frá því í síðustu viku að sérfræðingar í dóms- og fjármálaráðuneyti hefðu varað Sigríði við því að ef hún ætlaði að breyta út af lista hæfn­is­nefnd­ar um dóm­ara við Lands­rétt þyrfti hún að leggja sjálf­stætt mat á alla um­sækj­end­ur.

Ríkinu hef­ur verið dæmt til að greiða tveim­ur af þeim fjór­um dómur­um sem skipt var út, Ástráði Har­alds­syni og Jó­hann­esi Rún­ari Jó­hanns­syni, sam­tals 1,4 millj­ón­ir í miska­bæt­ur vegna ákvörðunar ráðherra.

Auk þess hafa Ei­rík­ur Jóns­son laga­pró­fess­or og Jón Hösk­ulds­son héraðsdóm­ari kraf­ist bóta. Jón fer fram á 30 millj­ón­ir króna í miska- og skaðabæt­ur en upp­hæð fylgdi ekki kröfu Ei­ríks.

Sigríður segir að Hæstiréttur hafi fyrir jól komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði þurft að rannsaka málið frekar fyrst hún breytti uppröðuninni. „Það var mér áfall,“ sagði ráðherra.

Sigríður segist ein bera ábyrgð á því að haga skipan dómara við Landsrétt eins og hún gerði. Samkvæmt gögnum sem Kveikur hefur undir höndum lagði fjöldi sérfræðinga til að hún framkvæmdi rannsókn á hæfi umsækjenda.

Meðal þeirra er Ragnhildur Arnljótsdóttir, settur ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu. Hún taldi skorta á rökstuðning Sigríðar og mælti með því að ráðherrann legði breytingar í hendur Alþingis eða frestaði skipan dómara.

„Ég er líka sérfræðingur“

Eins og áður hefur komið fram var Sigríði sagt að ef hún ætlaði sér að leggja til aðra umsækjendur yrði hún að gera það með rökstuðningi og mati á öllum umsækjendum.

Þrátt fyrir tilmæli sérfræðinga var ekki lagst í frekari rannsóknir á umsækjendum en Sigríður kvaðst ekki hafa neinn tíma til að fresta málinu. 

„Það var enginn sérfræðingur sem ráðlagði mér að gera eitt eða neitt. Ég tek auðvitað ábyrgðina. Ég er líka sérfræðingur á þessu sviði,“ sagði Sigríður og bætir við að hún hlusti ekki alltaf á ráðleggingar sérfræðinga í málum.

Hún tekur dæmi frá síðasta sumri þegar veita átti barnaníðingi uppreist æru. Þá hafi hún fengið tilmæli frá sérfræðingum í ráðuneytinu þess efnis að hún ætti að veita barnaníðingi uppreist æru, sem hún gerði ekki. „Ég tek mínar ákvarðanir byggðar á mínu hyggjuviti og stend við ákvarðanir mínar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert