Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem lamaðist eftir fall á Malaga, fær ekki vegabréfið sitt frá lögreglu í Malaga vegna þess að hún er í farbanni. Eiginmaður hennar var úrskurðaður í gæsluvarðhald hér á landi í síðustu viku í tengslum við fíkniefnasmygl.
Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldu Sunnu, sem er á leið til Malaga staðfestir í samtali við mbl.is að hann skilji það svo að Sunna fái ekki vegabréfið vegna þess að hún sé í farbanni.
„Eins og ég skil það þá er hún ekki með stöðu grunaðs eða vitnis í einu eða neinu,“ segir Jón og bætir því við að hann skilji ekki hvers vegna hún sé föst á Spáni.
Maður Sunnu var hnepptur í varðhald á Spáni í tengslum við rannsókn á falli hennar, en honum var síðan sleppt og telst málið upplýst. Hann kom til Íslands fyrir helgi og var þá handtekinn í tengslum við fíkniefnamál.
„Hún [Sunna] er ekki að fara neitt, það er ekki eins og hún setji á sig skóna og hlaupi í burtu,“ segir Jón, sem er eins og áður segir á leið til Spánar til að reyna að leysa málið.