„Það er enginn ferðamaður að fara að kaupa sér innanlandsflug sem er helmingi dýrara en millilandaflugið. Þá stoppa menn bara,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Frétt mbl.is: Hægt að fá innanlandsflug undir 10.000
Óformleg könnun Morgunblaðsins í gær leiddi í ljós að ferðamenn geta átt von á því að greiða allt að helmingi meira fyrir innanlandsflug hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.
Kannað var verð á flugi aðra leið milli Reykjavíkur og Akureyrar með Air Iceland Connect hinn 15. maí næstkomandi og það borið saman við álíka langar flugferðir frá höfuðborgum Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs með SAS. Verðið var hæst hér á landi og lætur nærri að það hafi verið helmingi hærra en í Svíþjóð, 16.725 krónur á móti 8.476 krónum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.