Samþykktu tillögur vegna Hvalárvirkjunar

Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. Vinnuvegir um fyrirhugað virkjanasvæði, sem nú hafa verið …
Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. Vinnuvegir um fyrirhugað virkjanasvæði, sem nú hafa verið samþykktir í hreppsnefnd, eru merktir inn á meðfylgjandi kort. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í dag tillögur að skipulagsbreytingum í sveitarfélaginu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í tillögunum er m.a. gert ráð fyrir efnisnámum og 25 kílómetra löngum vinnuvegum í rannsóknartilgangi um fyrirhugað virkjunarsvæði sem og vinnubúðum við Hvalá. Þá hafnaði hreppsnefndin á fundi sínum tillögu og boði Sigurðar Gísla Pálmasonar um að farið verði á hans kostnað í mat á kostum virkjunar annars vegar og verndun hins vegar.

VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, áformar að byggja 55 megavatta virkjun í óbyggðum víðernum Ófeigsfjarðarheiðar. Virkjunarhugmyndin er í nýtingarflokki rammaáætlunar og umhverfismat á henni hefur þegar farið fram. Hins vegar á enn eftir að útfæra mögulega tengingu hennar við raforkukerfið og lagningu rafstrengs. Hugmyndin er umdeild innan sveitarfélagsins og eru þrír hreppsnefndarmenn hlynntir henni og tveir á móti. 

Skipulagstillögurnar sem samþykktar voru í dag með breytingum vegna framkominna athugasemda fara nú til Skipulagsstofnunar sem þarf að staðfesta aðalskipulagið og yfirfara deiliskipulagið. Heildarskipulag vegna hinnar fyrirhuguðu virkjunar er þó enn ófrágengið. Frekari skipulagsbreytingar eru því fyrir höndum. Þá þarf að sækja um framkvæmdaleyfi vegna vinnuveganna og svo aftur vegna sjálfrar virkjunarinnar ef af henni verður. Slík leyfi þurfa einnig afgreiðslu og samþykkt hreppsnefndar. 

Segja vinnuvegi skerða víðernin

Í samtali við mbl.is fyrir áramót sagði eigandi VesturVerks að vonast væri til að hægt væri hefja veglagninguna og rannsóknir í kjölfarið þegar snjóa leysir í vor. Rannsóknirnar sem hann vísaði til snúa m.a. að berg- og jarðlögum og gagnaöflun á vatna- og fuglalífi sem og fornleifum eins og Skipulagsstofnun fór fram á. Hann sagði túlkunaratriði hvort að vinnuvegir sem þessir skerði óbyggð víðerni eins og þau eru skilgreind í náttúruverndarlögum. Í þeim segir að vegir skerði víðerni en vafinn fellst að mati eiganda VesturVerks í því hvað sé uppbyggður vegur.

Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna skipulagstillagnanna kom hins vegar fram að óbyggð víðerni innan Árneshrepps myndu skerðast verulega eða um allt að 180 ferkílómetra við gerð vinnuvega og efnisnáma um fyrirhugað virkjanasvæði eins og þeim er lýst í tillögunum. 

Í umsögninni kom ennfremur fram að óbyggðum víðern­um, sem standa skal vörð um sam­kvæmt nátt­úru­vernd­ar­lög­um, fari fækk­andi og þar með eigi verðmæti þeirra svæða sem eft­ir eru að aukast í sam­ræmi við það og rík­ari áhersla að vera á lögð á vernd þeirra.

Viltu fresta afgreiðslu tillagnanna

Þröng á þingi á hreppsnefndarfundi í Árneshreppi í dag. (F.v.) …
Þröng á þingi á hreppsnefndarfundi í Árneshreppi í dag. (F.v.) Erla Kristjánsdóttir, starfsmaður Verkís sem vann skipulagstillögurnar, Ingólfur Benediktsson varaoddviti og Hrefna Þorvaldsdóttir. mbl.is/Sunna

Tveir hreppsnefndarmenn, Ingólfur Benediktsson varaoddviti og Hrefna Þorvaldsdóttir, lögðu til að afgreiðslu skipulagstillagnanna yrði frestað. Sömuleiðis lögðu þeir til að tillaga Sigurðar Gísla um kostamat yrði samþykkt. Þrír hreppsnefndarmenn, þau Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti, Guðlaugur Ágústsson og Bjarnheiður Fossdal, samþykktu hins vegar skipulagstillögurnar og höfnuðu boði um kostamat.

Ingólfur og Hrefna lögðu raunar til í upphafi fundar að fresta umræðu um skipulagstillögurnar. Var því hafnað af meirihluta nefndarinnar. Í bókun sem þau lögðu þá fram segir að af minnisblaði Verkís, þar sem tillögur um viðbrögð við athugasemdum skipulagstillagnanna eru settar fram, sé ljóst að hreppsnefndarmenn séu sammála um að aðrir raunhæfir kostir komi til greina en að reisa Hvalárvirkjun og að samfélagsleg áhrif séu ofmetin. Afgreiðsla tillagnanna sé því ótímabær. Vitnuðu þau máli sínu til stuðnings í kafla í minnisblaði Verkís þar sem segir að í fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi „verði fjallað um þá kosti að stofna þjóðgarð á Ströndum og byggja upp ferðaþjónustu án virkjunar og þann kost að bæði Hvalárvirkjun og þjóðgarður verði á svæðinu“. Í umhverfisskýrslu verði umhverfisáhrif beggja kosta borin saman.

Hrefna og Ingólfur vildu því að tilboði Sigurðar Gísla um fjármögnun kostamats yrði tekið enda segi í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um umhverfismat áætlana að valkosta skuli leita við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þau teldu því einboðið „að láta áður en lengra er haldið fara fram mat á valkostum sem felast í því að vernda m.a. það landsvæði sem annars færi undir virkjanavegi, lón, efnistöku og stíflur með óafturkræfri eyðileggingu óbyggðra víðerna og fossa sem njóta verndar,“ eins og þau orðuðu það í bókun sinni á fundum.  

VesturVerk áformar að virkja rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði.
VesturVerk áformar að virkja rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

Á það féllst meirihluti nefndarinnar ekki og eftirfarandi tillaga oddvitans var samþykkt: „Boð Sigurðar Gísla um kostun á valkostagreiningu er afþakkað að svo stöddu.“

Eva sagði hugmynd Sigurðar Gísla allra góðra gjalda verða en að hún teldi ekki möguleika á því að fara í hana núna. Sagðist hún ekki hlynnt því að leggja til hliðar alla þá vinnu sem sett hefur verið í aðalskipulag sveitarfélagsins. „Ég er alveg á móti því að því verði öllu hleypt í loft upp,“ sagði hún og benti á að taka þyrfti aðalskipulag upp að nýju vegna kostagreiningar sem þessarar. „Ég held að virkjun og þjóðgarður geti farið saman en ég tel að virkjunin þurfi að koma á undan.“

Fyrir liggur að enn á eftir að gera að aðra breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar þar sem hún verður nánar skilgreind og skýrð.

Á fundinum í dag kom fram í máli fulltrúa Verkís, sem vann skipulagstillögurnar, að vegna framkominna athugasemda um skipulagsferlið, m.a. um að því hefði verið skipt í tvennt, hafi Verkís lagt að til við VesturVerk að farið verði í gerð tillagna að frekari skipulagsbreytingum strax en ekki beðið með þær eins og til hafði staðið.

Þá kom einnig fram að VesturVerk hefur nú fengið óháðan aðila til að gera samfélagsrannsóknir í Árneshreppi, líkt og óskað hafi verið eftir í mörgum þeim athugasemda sem fram komu við skipulagstillögurnar. 

Ítarlega verður fjallað um fund hreppsnefndarinnar í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert