Velferð byggð á þjófnaði

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði félags- og jafnréttismálaráðherra, á Alþingi um hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að stemma stigu við félagslegu undirboði og svikum á vinnumarkaði.

Hún sagði að um sé að ræða „glæp sem á sér stað þegar fólk er rænt launum sínum og réttindum“ og að mál sem þessi tengist ekki síst störfum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Fyrirtækin stundi þennan glæp til að auka gróða sinn og bæta samkeppnisstöðu sína.

„Svikin verður að stöðva“

„Það er óþolandi að velferðin hérna sé að hluta til byggð á þjófnaði,“ sagði Oddný og taldi engan vafa liggja á því að félagsleg undirboð ógni grundvallaratriðum norræna módelsins.

Hún hvatti til sameiginlegra aðgerða á Norðurlöndunum vegna vandamálsins.

„Svikin verður að stöðva hér á landi,“ sagði hún einnig og bætti við að brotastarfsemin tengist einkum ungu fólki og fólki af erlendum uppruna.

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp lagt fyrir Alþingi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði að unnið væri að frumvarpi um breytingar á lögum um útsenda starfsmenn og sú vinna fari fram í víðtæku samráði við stéttarfélög.

Hann nefndi að það standi jafnvel til í næstu viku að senda frumvarpið í opna kynningu. Í framhaldinu verði það lagt fyrir á Alþingi.

Ráðherrann benti einnig á vefsíðuna Posting.is sem Vinnumálastofnun setti í loftið í fyrra. Á henni má nálgast fræðslu um réttindi og skyldur erlendra þjónustufyrirtækja sem senda fólk til starfa hér á landi auk reglna sem gilda um starfsemi starfsmannaleiga hér á landi.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Algjörlega ólíðandi“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, kvaðst vilja sjá meiri kraft settan í málið, því félagsleg undirboð á vinnumarkaði séu „algjörlega ólíðandi“.

Hann sagði frumvarpið vera þegar tilbúið til umfjöllunar á þinginu og sagði það vonbrigði að heyra Ásmund Einar tala um að fara fyrst með það í opið umsagnarferli.  Ásmundur Einar svaraði því þannig að frumvarpið verði lagt fyrir þingið á næstu vikum. Fyrst þurfi það að fara í stutt umsagnarferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert