„Fokið í flest skjól“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera alvarlegt mál …
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera alvarlegt mál þegar ráðherra fær athugasemd eftirlitsaðila um störf sín. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera skelfilegt þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að hafa brotið lög við val á dómara.

Í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag fjallaði Guðmundur Andri um fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fram fór fyrr í dag þar sem Sigríður Á. Andersen, dóms­málaráðherra, sat fyrir svör­um þar sem rætt er um ákv­arðanir dóms­málaráðherra og verklag við vinnslu til­lögu Alþing­is um skip­an dóm­ara í Lands­rétt.

Frétt mbl.is: Fráleitt að ráðherra þurfi að fara að ráðum sérfræðinga

„Í því sambandi er rétt að muna að ein af megin ástæðum hrunsins sem hér varð árið 2008 er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis talin vera slök stjórnsýsla sem einkennist af geðþótta, valdasýki og frænd- og vinahygli,“ sagði Guðmundur Andri.

Í framhaldinu sagði hann að Sigríður Á. Andersen væri dæmi um ráðherra sem hunsar hæfisnefnd og fer ekki að ráðum sérfræðinga.

Sigríður sagði á fundinum í morgun að það væri frá­leitt að henni hafi borið að fara eft­ir ráðlegg­ing­um sér­fræðinga í dóms- og fjár­málaráðuneyt­inu sem höfðu efa­semd­ir um að ráðherra hefði innt af hendi rann­sókn­ar­skyldu sína þegar hún gerði til­lög­ur að skip­an dóm­ara við Lands­rétt.

„Það er alvarlegt mál þegar ráðherra fær athugasemd eftirlitsaðila um störf sín,“ sagði Guðmundur Andri á Alþingi í dag. „Það er verra þegar ráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög í starfi sínu. Það er enn verra þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að hafa brotið lög við val á dómara, það er alveg skelfilegt. Og þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að velja dómara fyrir nýtt dómsstig er fokið í felst skjól, líka skálkaskjól,“ sagði Guðmundur Andri.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert