Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera skelfilegt þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að hafa brotið lög við val á dómara.
Í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag fjallaði Guðmundur Andri um fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fram fór fyrr í dag þar sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sat fyrir svörum þar sem rætt er um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu Alþingis um skipan dómara í Landsrétt.
Frétt mbl.is: Fráleitt að ráðherra þurfi að fara að ráðum sérfræðinga
„Í því sambandi er rétt að muna að ein af megin ástæðum hrunsins sem hér varð árið 2008 er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis talin vera slök stjórnsýsla sem einkennist af geðþótta, valdasýki og frænd- og vinahygli,“ sagði Guðmundur Andri.
Í framhaldinu sagði hann að Sigríður Á. Andersen væri dæmi um ráðherra sem hunsar hæfisnefnd og fer ekki að ráðum sérfræðinga.
Sigríður sagði á fundinum í morgun að það væri fráleitt að henni hafi borið að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga í dóms- og fjármálaráðuneytinu sem höfðu efasemdir um að ráðherra hefði innt af hendi rannsóknarskyldu sína þegar hún gerði tillögur að skipan dómara við Landsrétt.
„Það er alvarlegt mál þegar ráðherra fær athugasemd eftirlitsaðila um störf sín,“ sagði Guðmundur Andri á Alþingi í dag. „Það er verra þegar ráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög í starfi sínu. Það er enn verra þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að hafa brotið lög við val á dómara, það er alveg skelfilegt. Og þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm fyrir að velja dómara fyrir nýtt dómsstig er fokið í felst skjól, líka skálkaskjól,“ sagði Guðmundur Andri.