Fráleitt að ráðherra þurfi að fara að ráðum sérfræðinga

Ráðherra telur að hún hafi ekki þurft að fara eftir …
Ráðherra telur að hún hafi ekki þurft að fara eftir ráðlegginum sérfræðinga í ráðuneytinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigíður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir fráleitt að henni hafi borið að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga í dóms- og fjármálaráðuneytinu sem höfðu efasemdir um að ráðherra hefði innt af hendi rannsóknarskyldu sína þegar hún gerði tillögur að skipan dómara við Landsrétt. Sig­ríður vék frá mati sér­stakr­ar hæfn­is­nefnd­ar sem mat 15 um­sækj­end­ur um dóm­arstöður hæf­asta, en hún gerði 4 breyt­ing­ar þegar hún skipaði í stöðurn­ar.

„Þó einhverjir stafsmenn í ráðuneytinu hafi viðrað sín sjónarmið, þá er fráleitt að ráðherra beri að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga í þessu,“ sagði Sigríður á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Dómsmálaráðherra situr nú fyrir svörum á fundi nefndarinnar þar sem rætt er um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu Alþingis um skipan dómara í Landsrétt.

Fram hef­ur komið að sér­fræðing­ar í dóms- og fjár­málaráðuneyt­inu vöruðu Sig­ríði Á. And­er­sen dóms­málaráðherra við því að ef hún ætlaði að breyta út af lista hæfn­is­nefnd­ar um dóm­ara við Lands­rétt þyrfti hún að leggja sjálf­stætt mat á alla um­sækj­end­ur.

Meðal þeirra sem vöruðu Sig­ríði við var Ragn­hild­ur Arn­ljóts­dótt­ir, sett­ur ráðuneyt­is­stjóri í dóms­málaráðuneyt­inu. Hún taldi skorta á rök­stuðning Sig­ríðar og mælti með því að ráðherr­ann legði breyt­ing­ar í hend­ur Alþing­is eða frestaði skip­an dóm­ara.

Jón Steindór spurði hvort það hefði ekki verið rétt af …
Jón Steindór spurði hvort það hefði ekki verið rétt af ráðherra að upplýsa þingið um að efasemdir væru um meðferð málsins innan ráðuneytisins. Kristinn Magnússon

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Sigríði hvort eftir á að hyggja það hefði ekki verið rétt af ráðherra að upplýsa þingmenn, samstarfsflokka og nefndir um að það væru verulegar efasemdir innan hans ráðuneytis um meðferð málsins. Það hefði kannski haf áhrif á afgreiðslu málsins á Alþingi.

„Hefði ekki verið rétt og skylt að upplýsa þingið þær viðvaranir sem hún fékk um meðferð málsins?“ spurði Jón Steindór.

Sigríður sagði að það væri ekki rétt lýsing að komið hefðu upp verulegar efasemdir um að rannsókarskylda hefði verið innt að hendi. Hún sagði þau sjónarmið hafa komið upp að hún hefði þurft að bera saman alla umsækjendur líkt og nefndin gerði. Slíkur samanburður hefði hins vegar legið fyrir í umsögn hæfnisnefndarinnar og sagðist hún því hafa talið rétt að nýta hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert