„Þurfum við „læk“ til að líða vel?“

Það er hægt að gera ýmislegt í snjallsímunum.
Það er hægt að gera ýmislegt í snjallsímunum. AFP

„Ég ákvað að deila mun meira af efni á samfélagsmiðlum til að sjá hvort það breytti líðan minni,“ sagði Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík. Hún var meðal þeirra sem hélt erindi á málþingi í HR; Frelsi eða Fíkn. Sál­ræn og fé­lags­leg áhrif snjall­tækja, sam­fé­lags­miðla og tölvu­leikja.

Ingibjörg var í fæðingarorlofi og gerði smá tilraun á sjálfri sér. Hún deildi öllu mögulegu og allir gátu fylgst með henni. „Þetta var ótrúlega gaman. Það var svo gaman til að byrja með að ég hugsaði með mér hvort ég ætti að verða áhrifavaldur,“ sagði Ingibjörg og uppskar mikinn hlátur í troðfullum salnum.

Ingibjörg viðurkenndi að hún hefði mjög fljótt verið uppiskroppa með myndefni og því meiru sem hún deildi því meiri tíma hafi hún eytt í símanum við að skoða fólk sem hún þekkir ekki. 

Þurfti alltaf að taka mynd

„Það er ótrúlega gaman að fylgjast með lífi annarra og ég var farin að ímynda mér hvernig líf einhvers sem ég þekki ekki væri,“ sagði Ingibjörg en samhliða þessu fann hún hvernig langanir í veraldlega muni jukust:

„Mér fannst ég þurfa að taka eldhúsið í gegn og bruna í brunch í Þrastarlundi.“

Hún sagði að sér hefði ekki liðið vel þegar líða tók á tilraunina. „Þetta tók tíma frá börnunum og ég var eirðarlaus. Ég naut ekki augnablikanna því ég þurfti alltaf að taka mynd.“

Glansmyndin er krefjandi

Ingibjörg sagði að skjánotkun hefði aukist gríðarlega síðustu tíu ár en óhófleg notkun getur haft slæm líkamleg og andleg áhrif. 34,3% stúlkna og 19% drengja í tíunda bekk verja í það minnsta fjórum klukkustundum á dag á samfélagsmiðlum. 

Hún benti á að félagslegur samanburður unglinga á samfélagsmiðlum getur aukið kvíða og vanlíðan, sé hann til staðar. „Það er krefjandi að sýna líf sitt á ákveðinn hátt, fullkominn hátt. Við þurfum að aftengja raunverulegu persónuna frá manneskjunni á samfélagsmiðlum,“ sagði Ingibjörg.

Jóhanna María Svövudóttir hélt erindi í dag.
Jóhanna María Svövudóttir hélt erindi í dag. mbl.is/Jóhann

„Við þurfum að bæta vellíðanina,“ sagði Ingibjörg og sagði að fólk þyrfti að einblína á það sem lætur því líða vel, ekki það sem færir því kvíða og vanlíðan. „Þurfum við læk til að líða vel? Mitt svar er nei.“

Grípur ósjálfrátt í símann

Jóhanna María Svövudóttir, nemandi í tölvunarfræði í HR, sagðist vera á báðum áttum þegar kæmi að snjalltækjum og ýmis konar tækni. Hennar lifibrauð, sem tölvunarfræðingur, mun snúast um margt sem tengist málefninu. „Hvar væru nemendur í dag til að mynda án google doc og fleiri forrita sem nýtast vel í hópastarfi,“ spurði Jóhanna.

Hún sagði sínar pælingar tengdar snjalltækjum hafa breyst þegar hún eignaðist dóttur á síðasta ári. „Tíminn með henni er dýrmætur. Við eyðum tíma saman en það er alltaf eitthvert áreiti og hún fær ekki fulla athygli þegar ég kíki á samfélagsmiðla. Það er eins og ég grípi ósjálfrátt í símann,“ sagði Jóhanna.

Hún sagði að það væri ljóst að samfélagsmiðlar stælu miklum tíma frá henni og hennar nánustu. Einnig hefur hún fundið að máttur „lækanna“ er mikill.

Hún hafi einhvern tímann fundið fyrir ánægju þegar eitthvert innlegg á samfélagsmiðlum hafi fengið mörg „læk“ og einnig efast þegar eitthvert innlegg fékk ekki nógu mörg „læk.“

„Er fyrst og síðast mamma“

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðisvið HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, velti því upp hvernig foreldrar geti alið börn sín upp í þessum heimi sem breytist svo hratt.

„Ég er fyrst og síðast mamma,“ sagði Margrét, en hún sagði að foreldrar vilji búa börnin sem best undir framtíðina. Hún benti á verkefni sem hefði gengið mjög vel sem snýr að vímuefnanotkun ungmenna. Mun færri ungmenni neiti nú vímuefna en fyrir 20 árum síðan.

Þá var farið í átak en Margrét sagði að þar hefði verið kallað á foreldra að taka þátt, sem virkaði. Foreldralausa hangsið var hér áður fyrr einhvers staðar úti en nú er það í símunum.

„50% af tíu ára krökkum eru á samfélagsmiðlum og þar er foreldralaust hangs,“ sagði Margrét og bætti við að það væri hægt að sjá nánast hvað sem er þar, til að mynda dýraklám, morð og afhausanir.

„Ef enginn er á „chatinu“ þá er ekki gaman þar,“ sagði Margrét og bætti við að foreldrar þyrftu að setja reglur saman. Það væri miklu auðveldara að vera „leiðinlegt foreldri“ ef allir eru það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert