Rúmlega eitt hundrað bifreiðar komast ekki leiðar sinnar á Sandskeiði og Hellisheiði vegna ófærðar en fjöldi bíla situr fastur og aðrir komast ekki leiðar sinnar af þeim sökum. Þetta segir Þorvaldur Hallsson, svæðisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is en björgunarsveitir á öllu höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út af þessum sökum.
Óvíst er hversu langan tíma mun taka að losa bifreiðarnar svo fólk komist leiðar sinnar að sögn Þorvaldar en það gæti tekið nokkra klukkutíma. Mjög hefur bæst við í kvöld en mbl.is ræddi við Öglu Þyri Kristjánsdóttur í kvöld, en hún hefur verið föst í bifreið sinni skammt vestan við Litlu kaffistofuna í tvo tíma. Ekki vegna ófærðar heldur vegna hins mikla fjölda bifreiða.
Agla sagði að svo virtist sem bifreiðar gætu ekið í hina áttina en Þorvaldur segir skýringuna á því að unnið sé að því að reyna að fá ökumenn til þess að snúa við. Engin slys hafa orðið á fólki svo vitað sé að sögn Þorvaldar. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur ekki verið beðið um að koma á staðinn. Auk björgunarsveitarfólks er lögreglan einnig á staðnum.
Stormur gengur nú yfir Vestur- og Suðvesturland. Stórhríð er á fjallvegum, 20-23 metrar á sekúndu og nánast ekkert skyggni. Hviður hafa farið upp í allt að 45 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli og hefur veginum þar verið lokað.
Lokað er yfir Hellisheiði og Þrengsli, og beinir Vegagerðin ökumönnum að fara Suðurstrandarveg og Grindarvíkurveg, en þar er hálka og skafrenningur.
Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru einnig lokaðar, sem og vegurinn um Fróðárheiði og Krýsuvíkurvegur.
Þá hefur Holtavörðuheiði einnig verið lokað.