Framleiðslufyrirtækið Sagafilm hyggst framleiða sjónvarpsþætti um stjórnmálamann sem glímir við geðhvarfasýki og verður forsætisráðherra Íslands. Ríkisútvarpið hefur tryggt sér sýningarrétt á þáttunum samkvæmt frétt Variety og er vinnuheitið „Ráðherrann“.
Fram kemur í fréttinni að fylgst verði með ungri konu, Hrefnu, sem ráðin er aðstoðarkona ráðherrans og hvernig hún kemst fljótlega að veikindum hans. Til þess að halda starfinu verði hún hins vegar að halda veikindunum leyndum fyrir almenningi. Handritshöfundarnir eru Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson.
Haft er eftir Kjartani Þór Þórðarsyni, framkvæmdastjóra hjá Sagafilm, að þættirnir verði í takt við það sem sé að gerast víða í löndum í dag þar sem fólk hefur verið svo örvæntingarfullt að losna við gömlu stjórnmálamennina að það hefur kosið yfir sig einstaklinga sem það vissi lítið um og setið síðan uppi með.
Hér má fræðast nánar um geðhvarfasýki.